Fallast á eftirlit Arababandalagsins

Mótmælendur hrópuðu slagorð gegn forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, í Ma'arrat …
Mótmælendur hrópuðu slagorð gegn forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, í Ma'arrat al-Numan skammt frá Adlb á föstudag. Reuter

Stjórnvöld í Sýrlandi hafa fallist á að hleypa eftirlitsmönnum á vegum Arababandalagsins inn í landið til þess að fylgjast með því að endi verði bundinn á níu mánaða blóðbað sem þar hefur ríkt í átökum stjórnarherja og mótmælenda.

Utanríkisráðherra Sýrlands, Walid Muallem, sagði af tilefninu að stjórnvöld hefðu aðeins fallist á afarkosti bandalagsins eftir að hafa fullvissað sig um að þeir ógnuðu ekki sjálfstæði þjóðarinnar. Ákvörðunin gilti í einn mánuð.

„Undirritun samkomulagsins markar upphaf samstarfs við Arababandalagið og við bjóðum eftirlitsmenn þeirra velkomna,“ sagði ráðherrann.

Hann sagðist eiga von á því að eftirlitsnefndin myndi staðfesta málstað stjórnarinnar, sem hefur haldið því fram að hún hafi átt í baráttu við vopnaða hryðjuverkahópa en ekki friðsama mótmælendur.

Vestrænar ríkisstjórnir og mannréttindasamtök hafa haldið því fram að mótmælin gegn stjórnvöldum í Sýrlandi á árinu hafi að langmestu farið friðsamlega fram en þarlend yfirvöld hafa þvertekið fyrir það og ítrekað reynt að réttlæta harkalegar aðgerðir sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert