Argentína vinnur sig út úr kreppunni 10 árum eftir þjóðargjaldþrot

Cristina Fernandez de Kirchner, forseti Argentínu.
Cristina Fernandez de Kirchner, forseti Argentínu. Reuters

Tíu árum eftir að hafa lýst yfir stærsta þjóðargjaldþroti sögunnar, hefur Argentína unnið sig út úr kreppunni með því að hafna aðhaldsaðgerðum á borð við þær sem nú á að beita til þess að bjarga evrusvæðinu.

Fyrir tíu árum var mikið umbrotatímabil í Argentínu. Landið skipti fimm sinnum um forseta á tveggja vikna tímabili, 33 manns létu lífið, þúsundir manna tóku þátt í háværum mótmælum, börn leituðu að mat í ruslatunnum og mikið var um skemmdarverk.

„Hvað gerðum við? Við sögðum að hinir látnu þyrftu ekki að borga skuldir sínar og að, til þess að heiðra minningu þeirra, yrðum við fyrst að endurvekja hagvöxt,“ sagði Cristina Kirchner, forseti Argentínu, í síðustu viku þegar hún líkti skuldakreppu evrusvæðisins við ástandið í Argentínu árið 2001.

Eiginmaður Kirchner heitinnar og forveri hennar í starfi, Nestor Kirchner, jók neyslu í landinu með því að mynda hvata fyrir lægri lánsvexti og með því auka opinberar niðurgreiðslur á árunum 2003 til 2007. Sú stefna hans virðist hafa virkað ágætlega. Meðalhagvöxtur í Argentínu hefur verið í kringum 9% frá árinu 2003, ef frá er talið árið 2009 en þá dróst hann saman um 0,9% vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar.

Í dag heldur neysla í Argentínu áfram að aukast en atvinnuleysi er í kringum 7%.

„Evrópska skuldakreppan er svipuð argentínsku kreppunni,“ sagði Belen Olaiz, sérfræðingur hjá hagfræðistofnuninni Olaiz of the Abeceb. Hún bætti við „aðhaldsaðgerðirnar og verðhjöðnun hafa ekki skilað árangri.“

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrisjóðsins hefur hinsvegar hafnað þessum samanburði á skuldakreppu evrusvæðisins og argentínsku kreppunni. Lagarde bendir á að þau aðildarríki Evrópusambandsins sem nú séu í vandræðum njóti góðs af stuðningi hinna aðildarríkjanna.

Rétt eins og evruríkin reyna í dag allt hvað þau geta til þess að bjarga evrusamstarfinu, þá reyndi Argentína upphaflega að halda argentínska pesóinum bundnum við dollarinn, eins og skylt var samkvæmt þarlendri löggjöf. Argentína samþykkti einnig aðhaldsaðgerðir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til og horfi á þeim tíma fram á langa og erfiða kreppu sem og aukið atvinnuleysi.

Í byrjun desembermánaðar árið 2001 frysti hinsvegar Argentína allar bankainnistæður í landinu í tilraun til þess að stöðva áhlaup á banka landsins og bjarga þarlendum fjármálastofnunum. Afleiðing þessa var stærsta efnahags- og þjóðfélagskreppa í sögu landsins.

Þetta voru örvæntingarfullar aðgerðir sem farið var út í eftir að innistæðueigendur höfðu á einungis þriggja mánaða tímabili tekið hátt í 22 milljarða bandaríkjadollara út úr argentínskum bönkum. Aðgerðirnar gerðu það að verkum að argentínski pesóinn hætti að vera tengdur bandaríkjadollar, en við það lækkaði gengi gjaldmiðilsins um 70%.

Nokkrum dögum eftir þessa aðgerðir synjaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn Argentínu um lán, en Argentína hafði óskað eftir því að fá 1,26 milljarða bandaríkjadollara lánaða. Af þessu leiddi að Argentína gat ekki staðið við fjárhagsskuldbindingar sínar og neyddist því til þess að lýsa yfir þjóðargjaldþroti sem nam um 100 milljörðum bandaríkjadollara.

Argentína tók síðan stórt skref þegar það neitaði að semja við lánadrottna sína og setti í staðinn fram einhliða skilmála. Argentínumönnum tókst síðan að fá 75% af skuldum ríkisins afskrifaðar með því að endurskipuleggja skuldir þess.

Viðræður argentínskra stjórnvalda við Parísarhópinn, um afborganir á þeim 6-8 milljörðum bandaríkjadollara sem Argentína skuldar erlendum ríkjum, hafa hinsvegar tafist árum saman.

Sérfræðingar segja þó að þessi aðferð, sem er algjör andstæða við þær aðferðir sem nú er notast við innan evrusvæðisins, myndi ekki virka fyrir illa stödd evruríki á borð við Grikkland.

„Þessi aðferð virkaði á sínum tíma vegna þess að heimurinn breyttist,“ sagði Marina Dal Poggetto hjá fyrirtækinu Bein & Accoiates og bendir jafnframt á að verð á hrávöru á borð við soja hafi fjórfaldast, dollarinn hafi veikst og vextir haldist lágir.

Hinn mikli hagvöxtur í Argentínu á síðustu árum er talinn vera knúinn af háu heimsmarkaðsverði á náttúruauðlindum og sojabaunum, en Argentína er einn af stærstu útflytjendum sojabauna í heiminum.

En argentínska leiðin hefur þó sína galla. Þannig hafa opinber útgjöld aukist um 35% ári og í ár var verðbólgan í landinu á bilinu 25-30%. Argentína hefur einnig verið hrakin af alþjóðamörkuðum og neyðst til þess að stóla á innlenda fjármögnun frá t.d. lífeyrissjóðum og seðlabanka landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert