Bretar senda herskip til Persaflóa

Breska herskipið HMS Daring í höfn í Portsmouth.
Breska herskipið HMS Daring í höfn í Portsmouth. Reuters

Nýjasta herskipið í breska flotanum er nú á leið til Persaflóa í fyrsta verkefni sitt í skugga mikillar spennu á svæðinu þar sem Íranar hafa hótað að loka olíuflutningaleiðinni um Hormuz-sund.

Herskipið HMS Daring er útbúið felubúnaði sem kemur í veg fyrir að það sjáist á ratsjám. Ferð skipsins var skipulögð fyrir rúmu ári og er það því sagt tilviljun að það bætist við breska flotann í Persaflóa nú þegar deilur Írana og vesturveldanna eru í hámæli vegna kjarnorkuáætlunar Írana.

Íranar hafa hótað að loka sundinu ef þeir verða beittir frekari efnahagsþvingunum. Breski varnarmálaráðherrann Philip Hammond sagði í opinberri heimsókn til Washington í þessari viku að bæði Bretar og Bandaríkjamenn ætluðu að tryggja að viðbrögð þeirra við ögrunum Írana yrðu með jafnaðargeði til að gæta þess að deilurnar stigmögnuðust ekki af vangá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert