Sögufrægur sovéskur njósnari látinn

Jósef Stalín, F.D. Roosevelt og Winston Churchill á fundinum í …
Jósef Stalín, F.D. Roosevelt og Winston Churchill á fundinum í Tehran í 1943.

Einn frægasti njósnari Sovétríkjanna í seinna stríði er látinn, 87 ára að aldri, samkvæmt yfirlýsingu frá rússnesku leyniþjónustunni. Hann er m.a. þekktur fyrir að hafa hindrað fyrirhugaða árás nasista á Jósef Stalín, Winston Churchill og F.D. Roosevelt.

Gevork Vartanyan, sem starfaði undir dulnefninu Amir, vann sér það fyrst til frægðar árið 1942 að takast að villa á sér heimildir og sitja heilt námskeið á vegum breskra stjórnvalda sem ætlað var fyrir breska njósnara sem senda átti um öll Sovétríkin. Að sögn rússnesku leyniþjónustunnar, SVR, arftaka KGB, stuðlaði Vartanyan með þessu að því að afhjúpa njósnanet Breta í Sovétríkjunum.

Þegar Vartanyan var aðeins 19 ára átti hann stóran þátt í því að koma í veg fyrir árás nasista á fund bandamanna í Teheran árið 1943, þar sem Jósef Stalín, Winston Churchill og F.D. Roosevelt hófu ráðagerðir sínar um skipulag Evrópu eftir stríð. Vartanyan kom, ásamt fleiri njósnurum, upp um ráðagerð sem samþykkt hafði verið af Adolf Hitler undir nafninu „stökkið langa“ en markmið hennar var að drepa leiðtogana þrjá.

Lífshlaup Vartanyans er sagt afar óvenjulegt, jafnvel á mælikvarða njósnara, en það er þó enn að miklu leyti sveipað leyndarhjúp. Eiginkona hans starfaði einnig fyrir leyniþjónustuna og saman stunduðu þau njósnir í yfir 30 ár í fjölda landa eftir heimsstyrjöldina. Hann lést á sjúkrahúsi í Moskvu síðdegis í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert