Milljónir fagna nýju ári

Milljónir manna í Asíu búa sig nú undir hátíðahöld í tilefni af áramótum samkvæmt þeirra tímatali. Samkvæmt kínversku tímatali gegnur ár drekans í garð á mánudaginn, en drekinn er goðsagnavera sem talin er boða gæfu í mörgum Asíulöndum.

Tímasetning kínverska nýársins er breytileg en það gengur jafnan í garð á öðru tungli eftir vetrarsólstöður og er fagnað í 15 daga með svokallaðri Vorhátíð, sem hefst á mánudag. Drekinn táknar gæfu, getuna til að verjast illu og betri tíð fyrir fjölskylduna. Meðal kínverskra para er því gjarnan vinsælt að geta barn á ári drekans.

En það er víðar en í Kína sem áramótunum er fagnað samkvæmt þessu tímatali. Í Bangkok er verið að undirbúa mikla skrúðgöngu í tilefni áramótanna og í Kambódíu selja götusölumenn nú ákveðnar gerðir ávaxtatrjáa og plantna til að gróðursetja um áramót í von um gæfu. Í Malasíu æfir dansflokkur kvenna fyrir skrautleg hátíðahöld og lætur háan aldur ekki trufla þá hefð, en meðalaldur kvennanna er 60 ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert