Hluti Evrópu á kafi í snjó

Víða á meginlandi Evrópu er allt á kafi í snjó líkt og á Íslandi. Einn maður lést úr ofkælingu í Rúmeníu eftir að bifreið hans festist í snjó. Björgunarsveitarmönnum tókst að bjarga konu úr bifreiðinni.

Í norðurhluta Búlgaríu hafa lögregla og björgunarsveitir þurft að draga fjölda bifreiða í burtu af vegum þar sem þær sátu fastar. Aðstoða þurfti um tvö þúsund manns sem sátu fastir í bifreiðum sínum í Giurgiu-héraði alla síðastliðna nótt.

Í Rúmeníu fæddi kona barn í sjúkrabifreið sem átti að flytja hana á fæðingardeild en sat föst í skafli.

Viðvörun var gefin út í stærstum hluta Búlgaríu þar sem hundruð þorpa og bæja voru án rafmagns og bifreiðir sátu fastar víðsvegar um landið. Almannavarnir vöruðu fólk við að ferðast en það hefur snjóað frá því í gær í Búlgaríu.

Ekkert samband hefur náðst við nokkra bæi í Serbíu og er byrjað að bera á matar- og lyfjaskorti, samkvæmt frétt B92.

Í Búkarest varð að aflýsta um 40 flugferðum og lestarsamgöngur hafa gengið erfiðlega. Jafnframt hefur þurft að loka fjórum höfnum við Svartahafið vegna hvassviðris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert