Kína leggur ESB hugsanlega til meira fé

Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á …
Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á fundi sem fram fór á síðasta ári. Reuters

Kínversk stjórnvöld styðja tilraunir til þess að koma á efnahagslegum stöðugleika innan evrusvæðisins og eru ennfremur með það í skoðun að leggja meira fjármagn í björgunarsjóði Evrópusambandsins. Bæði tímabundinn sjóð, sem upphaflega var hugsaður vegna efnahagserfiðleika Grikklands, og varanlegan sjóð sem ætlað er að taka við af þeim fyrrnefnda.

Þetta kom fram í máli Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, á fundi með kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, sem fram fór í Peking í dag að því er fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com.

Kínverjar hafa á undanförnum misserum meðal annars fjárfest mikið í skuldabréfum evruríkja sem glímt hafa við efnahagserfiðleika og þá einkum í þeim tilgangi að verja eigin hagsmuni en stór hluti af gríðarlegum gjaldeyrisvarasjóði Kína er í evrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert