Spennan magnast um Íran

Varnamálaráðherra Bandaríkjanna, Leon Panetta.
Varnamálaráðherra Bandaríkjanna, Leon Panetta. REUTERS

Þjóðir heims verða að sameinast um hörð refsiviðurlög til að þrýsta á Írana um að hætta við kjarnorkuvopnaáætlun sína, segir Leon Panetta, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Hann segir nauðsynlegt að beita mjög hörðum pólitískum og efnahagslegum viðurlögum. „Við beitum nú gríðarlegum þrýstingi á Íran í þeim tilgangi að einangra landið frá umheiminum,“ segir Panetta og bætir við að nauðsynlegt sé að halda þeim þrýstingi áfram.

Panetta var í dag staddur í bandarískri herstöð í Þýskalandi, þar sem blaðamenn gátu rætt við hann um stöðuna gagnvart Íran.

„Frá mínu sjónarhorni er það mikilvægast nú að halda alþjóðasamfélaginu sameinuðu til að halda uppi þrýstingi og sannfæra Írana um nauðsyn þess að þeir láti af þróun kjarnorkuvopna,“ sagði Panetta og bætti við: „Ef þeir gera það ekki höldum við öllum möguleikum opnum.“

Þessi ummæli Panetta koma fram degi eftir að Ísraelar komu fram með hótanir um loftárásir á Íran í þeim tilgangi að ráðast á kjarnorkuver þeirra, með eða án þátttöku Bandaríkjahers.

Ísraelar hafa þrýst mjög á um hörð viðurlög til handa Írönum og varað við þeim möguleika að þeir muni grípi til hernaðarlegrar íhlutunar gegn kjarnorkuvopnavæðingu þeirra.

Varnamálaráðherra Ísraels, Ehud Barak, fór í gær lofsorðum um ný evrópsk viðurlög gegn olíuviðskiptum Írana sem á að framfylgja næstu fimm mánuðina. Þeim er ætlað að veikja hjá þeim fjármálakerfið og seðlabankann.

Þá sagði Barak einnig: „Breiður alþjóðlegur skilningur er um að ef refsiaðgerðirnar ná ekki þeim árangi að stoppa kjarnorkuhervæðingu Írana, þá verði nauðsynlegt að skoða harðari aðgerðir.“

Refsiviðurlög vesturveldanna hafa stóraukist eftir að Sameinuðu þjóðirnar gáfu út skýrslu fyrir þremur mánuðum um rökstuddan grun um að Íranar væru að þróa kjarnorkuodda.

Öldungadeild Bandaríkjanna samþykkti refsiaðgerðapakka á fimmtudag þar sem markmiðið er að vinna á víðtækan hátt gegn olíuviðskiptum Írana, en aðgerðirnar munu einnig hafa umtalsverð áhrif á alþjóðasamskipti íranskra stjórnvalda.

Mahmoud Ahmadinejad forseti Írans.
Mahmoud Ahmadinejad forseti Írans. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert