Hvaðan var Chaplin?

Mynd af Chaplin frá 1914.
Mynd af Chaplin frá 1914. Reuter

Ný gögn frá bresku leyniþjónustunni sem gerð voru opinber í dag sýna fram á að erfiðlega gekk að ganga úr skugga um hvar Charlie Chaplin var fæddur. Bandaríska leyniþjónustan bað MI5 að kanna bakgrunn Chaplins er hann yfirgaf Bandaríkin árið 1952 grunaður um tengsl við kommúnista en breska leyniþjónustan fann enga staðfestingu á því að hann væri fæddur í London í apríl 1889 líkt og áður var talið.

Talið var að leikarinn hefði fæðst 16. apríl 1889 á East Street í Walworth í suðurhluta Lundúna, einungis fjórum dögum áður en Adolf Hitler fæddist, sem Chaplin hæddist að í kvikmyndinni „The Great Dictator“ frá 1940.

MI5 gerði leit að upplýsingum í London um fæðingarvottorð hans og leitaði ennfremur  að upplýsingum um ætlað leyninafn hans, „Israel Thornstein“. Niðurstaða leitarinnar var hins vegar á þennan veg: „Svo virðist sem Chaplin hafi ekki fæðst hér á landi eða að nafn hans við fæðingu hafi verið annað.“

John Marriot, einn af þáverandi yfirmönnum MI5, taldi að það varðaði ekki leyniþjónustuna þótt fæðingarvottorð hans fyndist ekki og skrifaði að það væri „forvitnilegt“ að fæðingarvottorð Chaplin fyndist ekki en það hefði líklega enga sérstaka þýðingu.

Lögreglurannsakendur hjá Scotland Yard fengu síðar ábendingu um að leikarinn væri í raun fæddur rétt sunnan við París í Frakklandi. Í minnisblaði frá MI5 um þetta sagði: „Þetta gæti eða gæti ekki verið satt en þar sem engin staðfesting finnst á því að Chaplin hafi verið fæddur á Bretlandseyjum gæti allt eins verið að hann hefði fæðst í Frakklandi.“

MI6, leyniþjónusta Breta í utanríkismálum, fékk málið í sínar hendur en fann engin merki um að Chaplin hefði fæðst í Frakklandi.

Snemma á 6. áratugnum hafði gripið um sig mikil hræðsla við kommúnisma í Bandaríkjunum. Chaplin var ekki heimilað að snúa aftur til Bandaríkjanna eftir að hann yfirgaf þau árið 1953 og lést árið 1977 í Sviss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert