Lettar kjósa um rússnesku sem opinber mál

Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram í Lettlandi í dag um hvort gera skuli rússnesku að opinberu tungumáli, til jafns við lettnesku. Ekki er útlit fyrir að það verði samþykkt þar sem aðeins þriðjungur íbúa landsins er af rússneskum uppruna eða talar rússnesku.

Stuðningsmenn þess að rússneskan skuli verða annað af opinberum málum landsins segjast vilja binda enda á mismunun í garð þeirra sem tala málið. Andstæðingarnir segja lettneskuna tákn frelsis og minnast þá jafnan á þegar þúsundir Letta voru fluttir til Síberíu og landsmenn neyddir til að tala rússnesku.

Lettland varð fullvalda árið 1991 eftir að hafa verið undir stjórn Sovétríkjanna í fimmtíu ár. Á heimsvísu tala um 1,2 milljónir manna lettnesku en 120 milljónir rússnesku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert