Sendinefnd SÞ aftur til Íran

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna, undir forystu Hermans Nackaerts hélt af stað …
Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna, undir forystu Hermans Nackaerts hélt af stað til Írans í gær. Reuters

Sendinefnd frá Sameinuðu þjóðunum kom til Teheran, höfuðborgar Írans, í morgun, til að freista þess að leita lausnar á deilu um kjarnorkuáætlun Írana. Þetta er önnur heimsókn nefndarinnar á þremur vikum.

Grunsemdir eru um að ekki sé allt uppi á borðinu hvað varðar kjarnorkutilraunir Írana og er heimsóknin sögð vera prófsteinn á samstarfsvilja Írana við Alþjóðakjarnorkustofnunina. Í skýrslu stofnunarinnar frá því í nóvember er leitt að því líkum að Íranar séu langt komnir með að smíða kjarnavopn.

Frá því að skýrslan kom út hafa bæði Bandaríkin og Evrópusambandið komið á refsiaðgerðum gegn Íran, sem felast í takmörkunum á olíuviðskiptum. Einnig hafa verið uppi vangaveltur um að Ísraelar, höfuðóvinir Írana, hefðu í hyggju að ráðast á þá staði þar sem talið er að Íranar smíði kjarnavopn sín.

Íranar neita því að hafa nokkuð með smíði kjarnavopna að gera og segja skýrsluna vera staðlausan áróður.

Bandaríski kjarnorkueftirlitsmaðurinn Herman Nackaerts fer fyrir nefndinni og sagðist hann vonast til þess að heimsóknin myndi bera áþreifanlegan árangur. „Þetta er flókið mál, sem gæti tekið nokkurn tíma að komast til botns í,“ sagði Nackaerts.

Fyrsta för eftirlitsnefndarinnar var farin í lok janúar. Þá hittu nefndarmenn enga yfirmenn kjarnorkuáætlunar Írans og fengu heldur ekki að fara á þá staði þar kjarnorkuáætlunin er framkvæmd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert