Keyrði á fullum hraða á vegg

Aðkoman að lestarslysinu mannskæða í Buenos Aires í Argentínu í dag var skelfileg að sögn vitna. Lestin keyrði á fullu stími inn á lestarstöðina með bilaða hemla og áreksturinn varð gríðarharður. „Fólk var í kremju og öskraði í örvæntingu. Ég sá blóð og lík út um allt," sagði einn sjónarvotta.

Staðfest hefur verið að 49 létust, þar á meðal eitt barn, og um 600 særðust, þar af 200 lífshættulega, þegar farþegalest keyrði á 20 km hraða á vegg í lestarstöð í höfuðborg Argentínu í dag. Hemlarnir voru bilaðir. „Lestin var full og áreksturinn var rosalegur," sagði einn sjónvarvotta sem nefndur var Ezequiel í samtali við fjölmiðla. Hann sagði að sjúkraflutningamönnum hafi fallist hendur þegar þeir komu á staðinn og sáu umfang slyssins.

Viðhald lestarkerfisins vanrækt

Við áreksturinn skullu vagnarnir hver aftan á öðrum og sumir þeirra krömdust saman. Einn vagninn lenti um 6 metrum inni í öðrum. Farþegar köstuðust úr sætum sínum og lentu hver ofan á öðrum í vögnunum „á einu andartaki" að sögn eftirlifenda. Sumir misstu meðvitund við áreksturinn og margir eru illa slasaðir. Verst var ástandið í fremstu vögnunum, þar sem um 30 manns sátu fastir. Slökkviliðsmaður sem náði fyrstur að klippa sig inn í fremsta vagninn segir að þar hafi hann mætt "vegg" af látnum og slösuðum farþegum.

Forseti Argentínu, Cristina Kirchner, aflýsti blaðamannafundi um Falklandseyja-deilunnar við Bretland þegar fregnir bárust af slysinu.

Rannsókn er hafin á tildrögum slyssins og hefur þegar komið upp úr dúrnum að starfsmenn lestarkerfisins kvarta yfir því að litlu fé hafi verið varið í viðhald og endurnýjun eftir að lestarkerfið var einkavætt á 10. áratugnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert