Deilum um 203 ára fjársjóðsskip lokið

Nokkrir af hundruðum þúsunda gullpeninga sem fundust um borð í …
Nokkrir af hundruðum þúsunda gullpeninga sem fundust um borð í skipinu. Reuters

Fjársjóður úr skipi sem sökk árið 1804, og fannst á sjávarbotni 203 árum síðar, árið 2007, var í dag fluttur til Spánar um borð í tveimur flugvélum. Um er að ræða um 23 tonn af silfri og gulli, en deila hefur staðið um eignarhald á fjársjóðnum síðan hann fannst.

Bandaríska fyrirtækið Odyssey Marine Exploration, sem stundar djúpsjávarrannsóknir, uppgötvaði skipsflakið og hinn verðmæta farm nærri Gíbraltarsundi, undan ströndum Portúgals. Skipið var spænskt og á leið heim frá Suður-Ameríku þegar því var sökkt af breska flotanum árið 1804. Farmur þess er sá verðmætasti sem fundist hefur úr sokknu skipi fyrr og síðar.

Bandaríkjamennirnir fluttu fjársjóðinn í höfuðstöðvar fyrirtækisins í Tampa í Flórída án þess að tilkynna yfirvöldum fundinn, en ríkisstjórn Spánar gerði tilkall til hans og var deilt um málið fyrir dómstólum í 5 ár.  Spánverjar höfðu sigur og var fjársjóðurinn í dag settur um borð í tvær Herkúles-flugvélar og verður fluttur til Spánar í nótt.

Farmurinn samanstendur af 595.000 silfur- og gullpeningum auk fjársjóðskistla og trúarlegra táknmynda. Að sögn talsmanns spænska varnarmálaráðuneytisins eru munirnir allir í fremur slæmu ásigkomulagi eftir að hafa legið í 208 ár á sjávarbotni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert