Útvaldir á fundi um framtíð ESB

Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands.
Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands. Reuters

Utanríkisráðherra Þýskalands, Guido Westerwelle, hefur valdið nokkrum kurr á meðal forystumanna ríkja Evrópusambandsins eftir að hann bauð aðeins fulltrúum tíu annarra ríkja sambandsins til óformlegs fundar í dag um framtíð þess að lokinni efnahagskrísunni sem geisað hefur undanfarin ár.

Fundurinn fer fram í Villa Borsig norður af Berlín höfuðborg Þýskalands og hefur utanríkisráðherrum Frakklands, Ítalíu, Belgíu, Lúxemborg, Hollands, Austurríkis, Danmerkur, Póllands, Portúgals og Spánar verið boðið að taka þátt í honum auk Westerwelle sjálfs.

Meirihluti ríkja Evrópusambandsins mun hins vegar ekki eiga fulltrúa á fundinum eða 16 af 27 núverandi ríkjum sambandsins. Fjallað er um þetta á fréttavefnum Euobserver.com í dag og haft eftir sænskum embættismanni að þýski utanríkisráðherrann væri ekki að stuðla að samvinnu á vettvangi Evrópusambandsins með því að skilja önnur ríki sambandsins útundan.

Einnig hefur borist gagnrýni frá Írlandi en þarlend stjórnvöld hafa gagnrýnt fundinn í ljósi þess að fyrir dyrum sé þjóðaratkvæðagreiðsla á Írlandi um nýjan sáttmála á vettvangi Evrópusambandsins um aukinn efnahagssamruna og slík fundahöld þar sem fulltrúa landsins sé ekki boðið hjálpi ekki til í þeim efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert