Hafði skipulagt árás í dag

Nágranni horfir út um glugga á vettvangi umsátusins.
Nágranni horfir út um glugga á vettvangi umsátusins. Reuter

Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, sagði við fulltrúa frá gyðingasamfélagi í Frakklandi að byssumaðurinn í Toulouse, Mohammed Merah, hafi ætlað sér að gera fjórðu árásina á miðvikudag. Leiðtogi gyðingasamfélags staðfesti að Sarkozy hefði sagt að „morðinginn hefði þegar áætlað að myrða að nýju og sú árás hefði átt að fara fram núna í morgun“.

Fréttastofa AFP hefur jafnframt eftir heimildarmanni innan raða lögreglu í Toulouse að Merah hefði ætlað sér að myrða annan hermann og hefði verið með tiltekið fórnarlamb í huga.

Sarkozy er nú viðstaddur minningarathöfn um hermennina þrjá, sem Merah er talinn hafa myrt. Hann hélt ávarp þar sem hann sagði að morðinginn hefði ætlað sér að „knésetja Frakkland, en mistekist“.

Innanríkisráðherra Frakklands, Claude Gueant, sagði nú fyrir skemmstu að samningaviðræður stæðu ennþá yfir við Merah. Merah hætti að tala við lögreglu fyrr í dag og heimildarmenn AFP segja að hann hefði þá „viljað hvílast og lesa“.

Talið er að hann sé vopnaður hríðskotariffli, sjálfvirkri skammbyssu og fjölda annarra vopna.

„Þetta eru langar og erfiðar samningaviðræður vegna þess að þessi ungi maður hefur mikinn viljastyrk,“ sagði Gueant.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert