Ferðamenn streyma til A-Evrópu

Frá Sofiu, höfuðborg Búlgaríu.
Frá Sofiu, höfuðborg Búlgaríu. Reuters

Gistinóttum í Rúmeníu fjölgaði um 17,5% milli ára 2010 og 2011. Aukningin varð enn meiri í Búlgaríu eða 21,1%. Þetta má lesa úr skýrslu um ferðamál á vef Eurustat, hagstofu Evrópusambandsins. Gistinóttum fjölgar í öllum aðildarríkjum sambandsins nema þremur.

Ferðaþjónustunni óx einnig fiskur um hrygg við Eystrasaltið. Þannig fjölgaði gistinóttum í Eistlandi um 14,5%, um 16,8% í Lettlandi og um 11,2% í Litháen.

Sem fyrr segir varð samdráttur á þessu sviði í þremur löndum, þ.e. á Ítalíu (-1,2%), á Möltu (-1,9%) og í Tékklandi, þar sem hann varð mestur (-3,0%).

Athyglisvert er að aðeins eitt af þeim fimm ríkjum þar sem aukningin er mest notar evru.

Eistland tók þannig upp evruna sem gjaldmiðil á nýársdag 2011 en Rúmenía, Búlgaría, Litháen og Lettland notast ekki við hina sameiginlegu mynt. Danmörk er í sjötta sæti en danska krónan er sem kunnugt er tengd evrunni.

Tvö af ríkjunum þar sem samdráttur varð nota evru, þ.e. Ítalía og Malta.

Skýrslu Eurostat má nálgast hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert