Hljóp hraðar en nokkru sinni fyrr

Útey.
Útey. AFP

„Ég heyrði skot frá bryggjunni. Það fyrsta sem mér datt í hug var að einhver væri að sprengja kínverja. Við vorum nýbúin að fá fréttir af sprengjunni í Ósló, en ekkert okkar vissi hversu stór sprengingin hefði verið,“ segir Sondre Lindhage Nilssen 16 ára, sem var í Útey  22. júlí í fyrra. Hann stóð nokkra metra frá vini sínum sem var myrtur.

Þetta segir Nilssen í viðtali sem birt er á vefsíðu norska dagblaðsins Aftenposten.

„Ég fór í átt að hljóðinu. Þegar ég hafði gengið nokkra metra var einn af félögum mínum skotinn, hann var skammt á undan mér. Síðan liðu tvær sekúndur og ég sá einn eða tvo í viðbót verða fyrir skotum. Ég náði ekki að hugsa neitt, þetta gerðist svo hratt og svo óvænt. Það eina sem mér datt í hug var að hlaupa og ég hljóp hraðar en ég hef nokkru sinni gert áður. Allt í kringum mig heyrðust óp og kvein og skothljóð.“

Faldi sig í helli

„Ég hljóp út í skóg og þar hitti ég tvær stúlkur, báðar 14 ára. Mér fannst ég þurfa að passa upp á þær, þær höfðu ekki verið í Útey áður, en ég rataði vel um eyjuna. Við földum okkur á ýmsum stöðum og enduðum í helli, þar sem við vorum í leyni með 10-12 öðrum unglingum.“

„Ég hélt á einni stúlku og hélt í hönd vinar míns. Við höfðum enga hugmynd um hversu margir væru að verki; einn, fimm eða tíu. Okkur fannst við hafa setið þarna klukkustundum saman.“

„Ferðamenn komu aðvífandi á bát, sáu okkur og kölluðu til okkar að okkur væri óhætt að koma fram, búið væri að ná skotmanninum. Við fengum far með þeim upp á fastalandið. Þar ríkti skelfileg ringulreið, þetta er það versta sem ég hef upplifað að hlaupa um allt og reyna að finna út hver hafði verið myrtur og hver lifði af.“

Lífið hefur verið erfitt

„Lífið hefur verið erfitt síðan þá. Fyrstu dagarnir og vikurnar voru hræðilegar, þá var verið að birta nöfnin á þeim myrtu, þetta var fólk sem ég þekkti. En vinir mínir pössuðu vel upp á mig, ég var aldrei einn. Til dæmis flutti einn vinur minn til mín, ég gat ekki sofið aleinn. Vinir mínir hjálpuðu mér að koma auga á að þó að ég hefði upplifað þetta, þá væri lífið ekki alvont.“

„Nú hef ég það ágætt. Ég veit um marga krakka, sem voru í Útey þennan dag, sem hafa hætt í skóla, en ég ætla ekki að láta það gerast. Ég ætla ekki að láta þetta eyðileggja meira fyrir mér. En ég á erfitt með að einbeita mér og það átti ég ekki áður en þetta gerðist.“

Stendur engin ógn af morðingjanum

„Ég er ákveðinn í að fylgjast með réttarhöldunum, þó að það verði erfitt. Ég hef verið við tvær fyrirtökur málsins og mér stendur engin ógn af morðingjanum. Hann situr þarna einn, yfirgefinn og aumkunarverður. Eftir því sem hann segir meira, því skýrara verður það hvers konar aumingi þetta er. En ég veit að við réttarhöldin mun koma fram hvernig félagar mínir voru myrtir og það á eftir að taka þungt á mig.“

Nilssen segist vera bjartsýnn á framtíðina. „Mig langar til að vera blaðamaður. Ég á aldrei eftir að gleyma því sem gerðist í Útey, en ég get fjarlægst það smám saman.“

Viðtalið á vefsíðu Aftenposten


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert