Hreinsun loftmengunar fjölgar fellibyljum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Reuters

Aðgerðir til þess að hreinsa upp loftmengun eftir verksmiðjur í Norður-Ameríku og Evrópu hafa mögulega aukið fjölda hættulegra fellibylja í Bandaríkjunum á síðustu árum, að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem framkvæmd var af vísindamönnum hjá bresku veðurstofunni, Met Office.

Vísindamennirnir sem að rannsókninni stóðu segjast hafa fundið tengsl á milli loftmengunar sem flýtur yfir höfin, aðgerða til þess að hreinsa hana upp og náttúruhamfara á borð við þurrka í Sahel-héraðinu í Norður-Afríku og fellibylja í Bandaríkjunum.

Við gerð rannsóknarinnar var aðallega fylgst með hitastigi á Norður-Atlantshafinu, en hitabreytingar þar taka of marga áratugi. Þegar hitaskeið stendur yfir fjölgar fellibyljum í Norður-Atlantshafi og úrkoma á sumum svæðum Afríku eykst, kuldaskeið hafa síðan þveröfug áhrif. Þessar hitabreytingar bera nafnið AMO-sveiflan (Atlantic Multidecadal Oscillation).

Núverandi heitaskeið AMO-sveiflunnar hófst í kringum árið 1995 en síðan þá hefur alvarlegum fellibyljum fjölgað samkvæmt upplýsingum frá Haf- og andrúmsloftsrannsóknarstofnun Bandaríkjanna (NOAA). Áður fyrr var talið þessar hitabreytingar ættu sér náttúrulegar orsakir en rannsókn bresku Veðurstofunnar gefur til kynna að lofteindir frá iðnaðarmengun og eldgosum hafi líklega verið orsakir þessara hitabreytinga á 20. öldinni.

Að sögn Pauls Hallorans, eins af vísindamönnunum á bak við rannsóknina, geta lofteindir vegna mengunar gert ský bjartari og látið þau endast lengur, en það getur haft það í för með sér að þau endurspegli í auknum mæli orku sólarinnar aftur út í geim sem aftur á móti veldur því að sjórinn kólnar. „Þegar iðnaðarmengun náði hámarki sínu yfir Atlantshafinu átti þetta fyrirbæri stóran hlut í því að kæla sjóinn fyrir neðan,“ sagði Halloran í samtali við Financial Times og bætti við: „Þegar mengun var þrifin upp, t.d. eftir setningu löggjafar um hreint loft á tíunda áratugnum, hækkaði hitastig sjávar.“

Lesa má nánar um málið á vefsíðu Financial Times.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert