Hvað gera stuðningsmenn Le Pen?

Marine Le Pen fagnaði með stuðningsmönnum sínum í kvöld
Marine Le Pen fagnaði með stuðningsmönnum sínum í kvöld AFP

Mikið er fjallað um niðurstöður fyrri umferðar frönsku forsetakosninganna í evrópskum fjölmiðlum í kvöld. Þrátt fyrir að sósíalistinn Francois Hollande virðist hafa fengið flest atkvæði þá er ekki öll nótt úti enn fyrir Nicolas Sarkozy, sitjandi forseta. Sú spurning sem brennur á flestum er - hvað gera kjósendur Marine Le-Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar?

Le Pen gefur upp hvorn hún styður þann 1. maí

Le Pen fékk 18-20% atkvæða en Sarkozy fékk 25,5-27% atkvæða í fyrri umferðinni í dag en ekki liggja endanlegar tölur fyrir. Le Pen hefur ekki sent út skilaboð til sinna stuðningsmanna um hvorn hún muni styðja í seinni umferðinni hinn 6. maí. Eins er ekki vitað hvort þeir muni fylgja hennar ráðum. En Le Pen tilkynnti nú í kvöld að hún myndi gefa út yfirlýsingu 1. maí um hvorn hún styður í seinni umferðinni.

Ítalska dagblaðið Repubblica varaði Hollande við því að fagna strax og blaðið La Stampa segir að bíða verði til 6. maí eftir því hver fer með sigur af hólmi og verði næsti forseti Frakklands.

Fréttaritari Corriere della Sera í París segir að það sé nú í höndum Marine Le Pen að ákveða framtíð Sarkozy.

Breska dagblaðið Guardian segir að árangur Le Pen sé eftirtektarverður og hún hafi aðra umferðina í höndum sér.

Belgíska dagblaðið Le Soir segir að þrátt fyrir að Sarkozy fái stuðning Le Pen dugi það ekki til að tryggja honum forsetastólinn áfram og að Hollande sé þegar kominn með annan fótinn inn í forsetahöllina, Elysee.

Melenchon styður Hollande

Danska dagblaðið Politiken kemst að svipaðri niðurstöðu og Le Soir og bendir á að vinstri maðurinn Jean-Luc Melenchon, sem fékk 11,7% atkvæða hafi þegar hvatt stuðningsmenn sína til að styðja Hollande í seinni umferðinni. Blaðið segir að Hollande geti treyst á stuðning vinstri sinnaðra kjósenda en það geti reynst honum þrautin þyngri að fá kjósendur Marine Le Pen til þess að styðja sig í seinni umferðinni.

Þýsku dagblöðin segja að árangur Le Pen og Melenchon sýni að franskir kjósendur eru ósáttir og vilji breytingar. Der Spiegel segir að Marine Le Pen njóti stuðnings verkamanna í Frakklandi sem þjáist og hún tali sama tungumál og þeir þegar hún talar illa um innflytjendur og forréttindahópa í landinu. 

Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í Frakklandi í kvöld segja 54% kjósenda að þau muni kjósa Hollande á meðan 46% segjast styðja Sarkozy.

Skoðanakönnun sem Ifop gerði leiðir í ljós að 48% stuðningsmanna Le Pen ætla að kjósa Sarkozy og 31% Hollande. Í skoðanakönnun OpinionWay kemur hins vegar fram að 18% stuðningsmanna hennar ætlar að kjósa Hollande og 39% Sarkozy.

Francois Hollande
Francois Hollande AFP
Nicolas Sarkozy.
Nicolas Sarkozy. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert