Telja Assad vera að missa völd sín

Bandaríkin telja Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, smátt og smátt vera að missa valdataumana úr höndum sér á sama tíma og þau árétta stuðning sinn við Tyrkland í deilunum ríkjanna á milli. Þetta kom fram í máli talsmanns Hvíta hússins í dag.

„Auðséð er að Assad reynir í örvæntingu að halda í völd sín,“ sagði Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, en bætti við að vísbendingar væru um að honum væri að mistakast. Meðal þess sem hann minntist á er að bardagar geisa nær Damaskus og eru harðari en áður. 

Hann hrósaði einnig tyrkneskum stjórnvöldum fyrir viðbrögð við því að sýrlenski herinn skaut niður tyrkneska orrustuþotu á föstudag. Það varð til þess að Atlantshafsbandalagið, NATO, fordæmdi atvikið á fundi sínum í dag. „Bandaríkin og NATO standa við hlið Tyrklands í þessu máli. Við munum vinna með ríkinu og öðrum til að stjórn Assads sæti ábyrgð.“

Bashar al-Assad
Bashar al-Assad AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert