„Vona að þú brennir í helvíti“

Sextán ára norsk stúlka, Maiken Fredriksen, var síður en svo ánægð með samskipti sín við norska símafyrirtækið Telenor fyrir helgi þegar hún hringdi í þjónustuver þess og kvartaði yfir því að hafa ekki fengið sms-skeyti um að hún væri að fara fram úr símainneign sinni eins og hún ætti að fá. Fréttavefur norska dagblaðsins Verdens Gang greinir frá þessu.

Starfsmaður Telenor sem svaraði ráðlagði Fredriksen að sækja símaforrit á netið til þess að geta fylgst með símanotkun sinni að hennar sögn en hún svaraði því til að hún ætti ekki að þurfa þess þar sem hún ætti að fá sms-skeyti sent með upplýsingum um það hvenær inneignin væri að verða búin.

Starfsmaðurinn bað hana þá um að vera hjálpleg en Fredriksen svaraði að þetta væri ekki nógu góð þjónusta og kvaddi kurteislega. Nokkrum mínútum síðar fékk hún sms-skilaboð í símann sinn úr símanúmeri hjá Telenor þar sem stóð: „Það er sjaldgæft að verða fyrir slíkri ósvífni. Vona að þú brennir í helvíti.“

Stuttu síðar barst annað sms-skeyti um að virkjuð hefði verið breiðbandsþjónusta fyrir síma Fredriksen sem hún hafði ekki óskað eftir. Móðir hennar varð mjög reið yfir þessari framkomu og hafði samband við Telenor en þar sem hún fékk enga afsökunarbeiðni hringdi hún í lögregluna og sömuleiðis fjölmiðla.

Rætt er við framkvæmdastjóra samskiptasviðs Telenor, Tor Odland, í frétt VG þar sem hann segir að fyrirtækið biðjist innilega afsökunar á þessu og að svona ætti ekki að koma fram við neinn. Hann hafi ennfremur aldrei heyrt um aðra eins framkomu.

Þá segir í fréttinni að Odland hafi sjálfur haft samband við fjölskylduna þegar hann frétti af málinu og er einnig haft eftir honum að starfsmaður Telenor sem svaraði stúlkunni sjái eftir framkomu sinni og að hann hefði enga afsökun fyrir henni.

Móðir Fredriksen segist hafa tekið afsökunarbeiðninni en engu að síður tekið þá ákvörðun að beina viðskiptum sínum annað en til Telenor.

Frétt Verdens Gang

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert