Kínverjar leika á spænsku kreppuna

Höfuðstöðvar Banco de Espana í Madrid. Kínverskir athafnamenn sjá tækifæri …
Höfuðstöðvar Banco de Espana í Madrid. Kínverskir athafnamenn sjá tækifæri á Spáni. AFP

Kínverskir athafnamenn reyna nú fyrir sér á Spáni með stofnun fyrirtækja mitt í miðri evrukreppu og atvinnuleysi sem mælist í tugum prósenta. Er nú svo komið að Kínverjar eru að baki fjórða hverju fyrirtæki sem stofnað er á Spáni.

Það er franska fréttaveitan France24 sem segir frá þessu. Hér má sjá fréttaskýringu France24 en hún er með ensku tali.

Vitnað er í Benzao Zhu, sendiherra Kína á Spáni, sem stappaði stálinu í kínverska athafnamenn á dögunum. Þeir yrðu að standa saman enda viðbúið að hagvöxtur yrði ekki mikill.

Þá er kínverskur athafnamaður tekinn tali og sagan af því sögð hvernig hann vann sig upp frá því að vera þjónn á veitingahúsi yfir í að verða eigandi margra vöruhúsa með kínverskan varning á Spáni. Segir hann viðskiptavinina fyrst og fremst koma frá Spáni, Portúgal, Ítalíu og Frakklandi.

Gerir það gott sem tengiliður

Einnig er rætt við unga kínverska konu sem talar spænsku reiprennandi eftir að hafa lokið þar meistaranámi í háskóla. Hún kom til Madrídar fyrir fáeinum árum með aðeins nokkra tugi þúsunda króna í farteskinu en gerir það nú mjög gott sem ráðgjafi og tengiliður fyrir spænsk fyrirtæki í Kína og öfugt. Evrukreppan sé tækifæri fyrir Kínverja á hennar aldri.

Loks má nefna að rætt er við spænskan fasteignasala sem lýsir því hvernig kínverskir innflytjendur hafi haldið lífi í fasteignamarkaðnum á tilteknum svæðum á Spáni á mjög erfiðum tímum eftir að fasteignabólan sprakk.

Fram kemur í fréttaskýringunni að vegna aukinna tengsla landanna á viðskiptasviðinu stuggi spænsk stjórnvöld ekki við Kínverjum með inngripum í viðkvæm málefni. Eru innanríkismál í Tíbet líklega á þeim lista.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert