Samkynhneigðir skátaforingjar ekki leyfðir.

Samtök drengskáta í Bandaríkjunum hafa aftur fest í sessi reglur sem banna samkynhneigða skátaforingja hjá samtökunum.

Styr hefur staðið um umrædda reglu í nokkurn tíma þar sem mörgum þykir hún fornfáleg og úr takt við tímann. Hafa Samtök stúlknaskáta þegar numið viðlíka reglu úr gildi hjá sér og gerðu reyndar árið árið 1980 að sögn fjölmiðilsins ABC. Hvetja þær í dag til fjölbreytni á sama tíma og hvers kyns mismunun er fordæmd.

Sérstök ráðgjafarnefnd skátahöfðingja og velunnara drengjahreyfingarinnar, sem hafði regluna til umræðu, komst að einróma niðurstöðu um að enn væri hins vegar drengskátahreyfingunni fyrir bestu að skátaforingjar væru ekki samkynhneigðir.

Hefur ákvörðunin sætt mikilli gagnrýni, jafnt frá hagsmunasamtökum samkynhneigðra sem og gagnkynhneigðum. Hefur verið bent á að í ljósi þess að skátahreyfingin er stærsta ungmennahreyfingin í Bandaríkjunum, með um 2,7 milljónir meðlima auk fjölda sjálfboðaliða, ætti slík mismunun ekki að leyfast.

Útlit er þó fyrir að breytingar gætu verið á leiðinni. Hefur verðandi forseti skátasamtakanna, Randall Stephenson, sem er forstjóri AT&T-símarisans, látið hafa eftir sér að fyrir honum sé forgangsmál að afnema umrædda klausu fyrir fullt og allt.

Hvort hann mætir andspyrnu samstarfsmanna sinna í stjórn sambandsins kemur í ljós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert