Breivik sakhæfur og fer í fangelsi

Anders Behring Breivik var ábyrgur gerða sinna er hann drap 77 manns í fyrra og er því sakhæfur. Dómur hefur verið kveðinn upp yfir fjöldamorðingjanum í sal 250 í dómshúsinu í Ósló. Hann mun afplána sinn dóm í Ila-fangelsinu í Akershus. 21 árs fangelsi er hámarksrefsing samkvæmt norskum lögum. Í raun er um ígildi lífstíðardóms að ræða því hægt er að lengja varðhaldið, eftir 21 ár, til fimm ára í senn. Breivik er dæmdur samkvæmt hryðjuverkalögum fyrir að hafa framið morðin af yfirlögðu ráði.

Meðal þess sem fram kom við uppkvaðninguna í morgun er að Breivik hafi ekki verið í geðrofi er hann framdi voðaverkin í fyrra. Fram kom við réttarhöldin, sem stóðu í tíu vikur, að hann hefði skipulagt morðin í tvö ár og framið þau að mikilli yfirvegun.

Nú tekur við lestur á dómnum í heild en talið er að hann taki 5-6 klukkustundir, með hádegishléi, enda var ákæran á hendur Breivik í mörgum liðum. Forseti dómsins, Wenche Arntzen, fór fyrst yfir ævi Breiviks. Meðal þess sem fram kom var að Breivik gisti hjá móður sinni, nóttina áður en hann lét til skarar skríða.

Því næst tók við lestur á niðurstöðu í hverjum einasta ákærulið.

Breivik var fluttur í dómshúsið snemma í morgun og er viðstaddur uppkvaðninguna. Hann brosti ánægjulega er ljóst var að dómararnir hefðu komist að því að hann væri sakhæfur. Hann heilsaði umheiminum með því að rétta fram krepptan hnefann, að sið öfgamanna. 

Breikvik myrti 77 manns í Ósló og Útey 22. júlí á síðasta ári. Fyrst kom hann fyrir bílasprengju við stjórnarráðsbyggingu í miðborg Óslóar. Átta manns létust af hennar völdum. Þá fór Breivik út í Útey, rétt fyrir utan höfuðborgina, og hóf skothríð á hóp ungmenna sem þar dvaldi. 69 lágu í valnum áður en árásinni lauk.

Breivik hefur verið í haldi síðan og játað sök frá upphafi.

Fjöldi ættingja og vina fórnarlamba morðingjans eru í dómssalnum og fyrir utan dómshúsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert