ESB-umsókn ekki á dagskrá

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs og formaður norska Verkamannaflokksins.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs og formaður norska Verkamannaflokksins. AFP

Haft er eftir varaformanni norska Verkamannaflokksins, Helgu Pedersen, á fréttavefnum Abcnyheter.no að flokkurinn hafi lagt allar fyrirætlanir á hliðina um að setja aðild að Evrópusambandinu á dagskrá í Noregi. Þingkosningar fara fram í landinu á næsta ári.

Pedersen fer einnig fyrir nefnd innan Verkamannaflokksins sem hefur það verkefni með höndum að semja drög að stefnu flokksins fyrir kjörtímabilið 2013-2017. Aðspurð um það hver afstaðan til ESB sé í drögunum segir hún hana vera óbreytta en þar er ekki kallað eftir því að sótt verði um aðild.

„Ég held að það sé breið samstaða um það í stefnumótunarnefndinni að ekki sé ætlunin að sækjast eftir aðild að ESB fyrr en það hefur orðið viðvarandi breyting í afstöðu fólks,“ segir Eskil Pedersen, formaður ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins, AUF. „Ég tel að það sé heimskulegt að gera ESB-aðild að deiluefni núna.“

Pedersen segir ennfremur að Verkamannaflokkurinn geti ekki horft framhjá því að mikill meirihluti Norðmanna sé andvígur aðild að ESB. Það væri ekki stuðningsmönnum aðildar í hag að setja málið á dagskrá núna. ESB verði fyrst að leysa þau vandamál sem það sé að glíma við og vísar þar til efnahagserfiðleikanna innan sambandsins.

Frétt Abcnyheter.no

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert