Voru undir áhrifum frá presti

Frá mótmælum vegna myndarinnar „Sakleysi múslíma“
Frá mótmælum vegna myndarinnar „Sakleysi múslíma“ AFP

Framleiðendur kvikmyndar, sem sögð er gera lítið úr múslímatrú og vakið hefur hörð viðbrögð víða um heim, voru undir áhrifum frá presti nokkrum í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum. Presturinn aðhyllist trú kopta sem er afbrigði af kristinni trú og hefur í gegnum tíðina predikað að Múhameð spámaður hafi verið samkynhneigður og barnaníðingur.

Presturinn, sem heitir  Zakaria Botros Henein, hefur ekki verið tengdur beint við gerð kvikmyndarinnar, en mennirnir þrír sem framleiddu hana eru lærisveinar hans. Einn þeirra, Steve Klein, sagði í viðtali við bandaríska dagblaðið The Los Angeles Times, að Botros væri náinn vinur sinn og hann líkti honum jafnframt við mannréttindafrömuðinn Martin Luther King.

Botros rekur gervihnattarsjónvarpsstöð sem sendir út á arabísku frá heimili sínu í Kaliforníu og þar hefur hann varið myndina og gagnrýnt þau viðbrögð sem hún hefur fengið.

Hann á nokkurn sakaferil að baki. Hann var fangelsaður nokkrum sinnum í Egyptalandi fyrir að hafa áreitt múslíma og reynt að snúa þeim til kristinnar trúar. Að lokum var honum vísað úr landi. Þá hélt hann til Ástralíu þar sem hann hélt uppteknum hætti. Hann hefur verið búsettur í Bandaríkjunum um skeið og var sakfelldur þar fyrir fjársvik árið 2010.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert