Myndum mótmælt í Líbanon

Sheikh Maher Hammoud horfir á fánabrennu í Líbanon í dag.
Sheikh Maher Hammoud horfir á fánabrennu í Líbanon í dag. MAHMOUD ZAYYAT

Kvikmyndinni um Múhameð spámann og teikningum franska skoptímaritsins var mótmælt í helstu borgum Líbanons í dag. Róttækir klerkar kölluðu eftir lífláti allra sem tengdust gerð myndarinnar og skólum og stofnunum tengdum Frakklandi var lokað. Þá voru fánar Bandaríkjanna og Ísraels brenndir.

Í borginni Sídon lýstu klerkar súnníta yfir „degi reiðinnar“ yfir móðgunum við spámanninn en hvöttu fylgjendur sína til þess að halda reiðinni innan veggja moskunnar.  Hins vegar kölluðu nokkrir klerkar í Sídon eftir því að æðstu yfirmenn súnníta gæfu út fatwa eða tilskipun sem legði blessun sína yfir morð á öllum þeim sem tengdust gerð kvikmyndarinnar.

„Sá sem dirfist að móðga íslam og spámanninn Múhameð skal ekki lifa. Það eru hlutir sem ekki er hægt að umbera og móðgun við spámanninn Múhameð er einn af þeim,“ sagði Sheikh Maher Hammoud, sem er ímam Quds-moskunnar, í ræðu sinni. „Allir af þeim ættu að vera drepnir.“

Í Tripolí í norðurhluta Líbanons ákallaði róttæki klerkurinn Omar Bakri „hermenn Íslams“ til þess að hefna fyrir gerð kvikmyndarinnar og birtingu teiknimyndanna. Bakri bað aðra múslíma um að styðja við tilskipun sem myndi gera það „löglegt að drepa þá sem hefðu móðgað spámanninn“.

Í höfuðborginni Beirút brenndu mótmælendur fána Bandaríkjanna og Ísraels fyrir utan mosku. Mótmælin voru friðsamleg og sóttu menn þau til að heyra ræðu Sheikh Assirs, sem hefur gagnrýnt ríkisstjórn Sýrlands og Bashar al-Assads forseta undanfarið ár. „Þetta er það sem skiptir mig mestu máli núna, að vera hér er mikilvægara en heimili mitt og fósturjörð,“ sagði Rima, skólakennari frá Sýrlandi sem flúði heimaborg sína Aleppó fyrir tveimur mánuðum. Hún var ein af fjölmörgum landflótta Sýrlendingum sem hlýddu á boðskap Assirs.

Sheikh Assir fordæmdi Bandaríkin og Frakkland í ræðu sinni. „Ríkin sem leyfa þessum öfgamönnum að ráðast á önnur trúarbrögð eru öfgalönd sem bera ábyrgð á öfgum í heiminum,“ sagði hann og bætti við: „Við erum ekki öfgamenn“, við mikinn fögnuð viðstaddra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert