Bandaríkin verja sendiráð sín

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna AFP

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að Bandaríkin væru að taka ákveðin skref til þess að verja sendiráð sín og starfsfólk. Þá væru yfirvöld þar í landi að fara yfir öryggismál í hverju landi fyrir sig og auka við þar sem þurfa þætti. 

Meira en þrjátíu manns hafa nú látist í óeirðunum, sem sagðar eru eiga sér rætur í lélegri kvikmynd um Múhameð spámann. Í morgun féllu tólf manns og ellefu særðust í sjálfsmorðssprengjuárás í Kabúl, höfuðborg Afganistans. Þá féllu fjórir Bandaríkjamenn í fyrstu árásinni á ræðismannsbústaðinn í Benghazi í Líbíu. Sagði Clinton að Bandaríkin myndu ekki unna sér hvíldar fyrr en þeir sem hefðu staðið að baki þeirri árás hefðu verið teknir höndum og refsað.

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur hafið rannsókn á árásinni í Líbíu. Sagði Clinton að Bandaríkin væru að vinna með líbískum yfirvöldum, en þau hafa komið á fót eigin rannsókn á málavöxtum. Ætti samvinnan að stuðla að því að hægt væri að komast að því hver hefði myrt sendiráðsstarfsmennina og undir hvaða kringumstæðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert