Ástandið „slæmt og fer versnandi“

Myndin var tekin í hverfinu al-Amiriya í borginni Aleppo eftir …
Myndin var tekin í hverfinu al-Amiriya í borginni Aleppo eftir loft- og stórskotaliðsárásir sýrlenska hersins í dag. mbl.is/afp

Ástandið í Sýrlandi er „með eindæmum slæmt og fer versnandi“ segir sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna (SÞ), Lakhdar Brahimi. Hann gaf öryggisráði SÞ skýrslu um fyrstu ferð sína til Sýrlands til að reyna að miðla þar málum.

Brahimi segist munu snúa fljótlega aftur til landsins en viðurkennir að hann hafi engar fullnaðar tillögur um hvernig koma megi á friði í Sýrlandi. Átök héldu þar áfram í dag og segja uppreisnarmenn að stjórnarherinn hafi haldið uppi sprengjuárásum á Aleppo, næst stærstu borg landsins.

„Það mótmælir enginn því að ástandið í Sýrlandi er með eindæmum slæmt og fer versnandi. Svæðinu stafar ógn af því og friði og öryggi í heiminum er stefnt í voða,“ sagði Brahimi í höfuðstöðvum SÞ í New York.

Hann segir engar vonir um skjótfenginn frið í Sýrlandi en kveðst samt lifa í voninni um að eitthvað vænkist innan skamms. Hann sagðist trúa því að „skynsamlegt fólk“ myndi átta sig á því að það gæti ekki horfið aftur í tímann. 

Af hálfu SÞ er talið a á þriðja tug þúsunda hafi týnt lífi í Sýrlandi frá því andstæðingar stjórnar Assads forseta risu upp í mars í fyrra. Andstæðingar hans telja að tala látinna sé komin í 30.000 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert