Bóndi étinn af eigin svínum

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. mbl.is/Árni Sæberg

Yfirvöld í Oregon í Bandaríkjunum rannsaka nú hvernig það vildi til að svínabóndi í ríkinu var étinn af eigin svínum í kjölfar þess að hluti líkamsleifa hans fannst innan girðingar þar sem svínin voru geymd.

Bóndinn, hinn 69 ára gamli Terry Vance Garner, sneri ekki heim aftur eftir að hafa farið að fóðra dýrin síðastliðinn miðvikudag. Ættingi hans fann hins vegar fölsku tennurnar hans og hluta af líkamsleifum hans innan girðingarinnar nokkrum klukkustundum síðar en stærstur hluti þeirra hafði verið étinn.

Ein kenningin er sú að Garner hafi hugsanlega orðið fyrir hjartaáfalli eða einhverjum öðrum skyndilegum veikindum en ekki er talið útilokað að svínin hafi einfaldlega fellt hann, drepið og síðan étið hann.

Haft er eftir saksóknaranum Paul Fraiser á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að vitað sé að Garner hafi áður verið bitinn af einu svíninu. Ekki er heldur útilokað að einhverjir hafi átt hlut að máli. „Við vitum það eitt að þetta er hræðilegt slys en það er svo gríðarlega skrítið að við verðum að skoða alla möguleika,“ segir Frasier.

Meinafræðingum hefur ekki tekist að staðfesta dánarorsök Garners en líkamsleifar hans verða rannsakaðar frekar af mannfræðingum við Oregon-háskóla samkvæmt fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert