„Of upptekinn til að deyja“

Stofnandi Ikea, Ingvar Kamprad.
Stofnandi Ikea, Ingvar Kamprad.

Hinn 86 ára gamli stofnandi Ikea, Ingvar Kamprad segir að hann stefni ekki að því að hætta afskiptum af fyrirtækinu á næstunni þrátt fyrir orðróm um annað. Það haldi honum uppteknum og hann megi hreinlega ekki vera að því að deyja.

„Fyrirtækið verður aldrei sett á markað,“ segir Ingvar í samtali við svissneska viðskiptablaðið Bilanz. „Við viljum halda okkur við að fjármagna okkur sjálf,“ segir Ingvar.

Kamprad var sagður ríkasti maður Evrópu af Bilaz. Áætlaðar eigur hans nema 28,8 milljörðum evra eða ríflega 4.500 milljörðum íslenskra króna.

Orðómur hefur verið um að hann ætli sér að hætta rekstri fyrirtækisins og eftirláta hann sonum sínum þremur. Hann segir ekkert til í því.  

„Ég er svo upptekinn að ég hef engan tíma til að deyja,“ segir Kamprad.

Í viðtalinu talar hann jafnframt um meint rifrildi við syni sína, sem allir eru lykilstarfsmenn í fyrirtækinu.

„Við erum ekki alltaf sammála, en það er eðlilegt í fjölskyldum,“ segir Kamprad.

131 þúsund starfsmenn starfa hjá Ikea í 41 landi. Þrátt fyrir gífurleg auðæfi hefur Kamprad ávallt lifað fábrotnu lífi.

Kamrad stofnaði Ikea árið 1943 í heimabæ sínum Aelmhult í suðurhluta Svíþjóðar. Hann hefur á stundum verið harðlega gagnrýndur fyrir tengsl sín við Hitlersæskuna í seinni heimsstyrjöldinni.

Síðar lýsti hann tengslum sínum við nasisma sem „bernskubrekum“ og „stærstu mistökum lífs síns“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert