Jafnt fyrir síðustu kappræðurnar

Romney og Obama takast á.
Romney og Obama takast á. AFP

Forsetaframbjóðendurnir Mitt Romney og  Barack Obama mætast í þriðju og síðustu kappræðunum fyrir bandarískur forsetakosningarnar í kvöld. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum mælast frambjóðendurnir með jafnmikið fylgi.

Kappræðurnar í kvöld fara fram í Flórída og þar verður rætt um utanríkismál. Fimmtán dagar eru þar til kjósendur ganga til kosninga og er það almennt mál manna að Mitt Romney hafi meðbyr fyrir lokaátökin.   

Talið er að í kvöld muni Obama reyna að hamra á því að hann hafi verið sá sem stóð fyrir drápinu á Osama Bin Laden og að hann beri ábyrgð á því að draga hermenn Bandaríkjanna frá Írak.

Romney mun líklega reyna að draga Obama til ábyrgðar fyrir linkind í samskiptum við Íran og Kína og vegna sprengjuárásar á bandaríska sendiráðið í Benghazi í Libíu 11. september, sem leiddi til dauða fjögurra Bandaríkjamanna.

Fyrirfram er talið að Romney sé betur að sér þegar kemur að viðskiptum en utanríkismálum. Því eigi Obama tækifæri til sóknar í kvöld. Á móti benda aðrir fréttaskýrendur á það að einungis 4% kjósenda treysti Obama betur fyrir utanríkismálum  nú. Sá munur var 15% fyrir nokkrum vikum.

Romney var talinn hafa unnið fyrstu kappræðurnar en Obama þær næstu. Fylgissveiflur hafa fylgt kappræðunum í ár. Því er búist við því að kappræðurnar í kvöld geti haft mikil áhrif á niðurstöður kosninganna. 

AFP segir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert