Birna og ísbjarnarhúnn felld á Grænlandi

Ísbjörn sem gekk á land á Hornströndum 2. maí 2011.
Ísbjörn sem gekk á land á Hornströndum 2. maí 2011. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Íbúar í bænum Kangaatsiaq á Grænlandi felldu í dag ísbjörn og ísbjarnarhún, en birnan synti með húninn á bakinu úti fyrir ströndinni þegar dýrin sáust fyrst. Íbúarnir reyndu að hrekja dýrin á brott, en þegar það skilaði ekki árangri var ákveðið að skjóta þau.

Menn urðu fyrst varir við dýrin í Niaqornaarsuk á sunnudag. Birnan var þá á sundi í sjónum með húninn á bakinu. Íbúar fóru á bátum út til að fylgjast með og tóku myndir af dýrunum.

Íslaust er við ströndina á þessum tíma árs og því óvenjulegt að rekast á ísbirni á sundi. Ákveðið var að láta dýrin í friði.

Í dag var birnan komin með húninn til Kangaatsiaq. Íbúar töldu sér standa veruleg ógn af dýrinu. Þeir reyndu að hrekja það á brott með því að skjóta upp í loftið en það skilaði ekki árangri.

Peter Løvstrøm, forstöðumaður stofnunar sem stýrir veiðum, segir að húnninn hafi ekki getað hlaupið hratt og birnan myndi aldrei yfirgefa húninn sinn. Það hafi því ekki verið um annað að ræða en að fella dýrin.

Myndband af birnunni á sundi með húninn á bakinu.

Frétt um örlög birnunnar og húnsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert