Segir af sér vegna dóma yfir vísindamönnum

Rústir í L'Aquila daginn eftir skjálftann.
Rústir í L'Aquila daginn eftir skjálftann. mbl.is/reuters

Yfirmaður náttúruhamfarastofnunar Ítalíu, Luciano Maiani, hefur sagt af sér eftir að sjö samverkamenn hans voru dæmdir í gær. Þeir voru gerðir ábyrgir fyrir manntjóni í jarðskjálftunum sem lagði bæinn L'Aquila að mestu í rúst 6. apríl 2009.

Sex vísindamenn og fyrrverandi ríkisstarfsmaður voru dæmdir fyrir að hafa villt fyrir íbúum um hættuna á skjálfta í L'Aquila eftir smáskjálfta um viku áður en sá stóri reið yfir er lagði borgina að miklu leyti í rúst.

Skjálftinn mældist 6,3 stig á richterskvarða og fórust 309 manns af völdum hans.

Maiani, sem er eðlisfræðingur, segist ekki geta starfað lengur „við svo erfiðar aðstæður“ eins og hann nefndi stöðuna eftir dómana. Hann sagði útilokað að hann gæti unnið af ró og yfirvegun og borið fram vandað vísindaálit eftir dómana. 

„Þetta eru fagmenn sem voru í góðri trú og höfðu enga persónulega hagsmuni af ráðgjöf sinni. Þeir hafa ætíð sagt, að ókleift væri að spá fyrir um jarðskjálfta,“ segir Maiani við blaðið Corriere della Sera. „Þetta er upphafið að endalokum þess að vísindamenn veiti ríkinu ráðgjöf,“ bætti hann við.

Maiani er heimskunnur vísindamaður og var æðsti stjórnandi kjarnorkurannsóknarstöðvarinnar Cern í Sviss 1999-2003. Að sögn fréttastofunnar Ansa er við fleiri afsögnum að búast vegna dómanna.

Hinir dæmdu voru allir starfsmenn náttúruhamfarastofnunarinnar og sátu í nefnd sem fylgdist með hættunni á hamförum og hvernig mætti sporna gegn þeim. Voru þeir sakaðir um að hafa sent frá sér „ónákvæmt, ófullnægjandi og mótsagnakennt“ álit eftir að nokkrir smáskjálftar fundust í L'Aquillasvæðinu nokkrum dögum fyrir stórskjálftann. Á fundi með ráðamönnum í  L'Aquila nokkrum dögum áður sögðu þeir, að þótt ekki væri útilokað að stór skjálfti riði yfir væri það ólíklegt að svo gerðist.

Skjálftinn reið yfir að kvöldi til og margir sem ákváðu að dveljast inni á heimilum sínum yfir nóttina fórust. Fólk sem ákvað að hafast við utandyra slapp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert