Ísrael og Bandaríkin ræða um Íran

Benny Gantz æðsti maður ísraelska hersins ásamt Martin Dempsey yfirmanni …
Benny Gantz æðsti maður ísraelska hersins ásamt Martin Dempsey yfirmanni Bandaríkjahers. AFP

Martin Dempsey, yfirmaður Bandaríkjahers, og Shimon Peres, forseti Ísraels, funduðu í dag um „írönsku kjarnorkuógnina, styrkingu hernaðarlegra tengsla milli landanna og þróun á svæðinu,“ samkvæmt tilkynningu frá ísraelsku forsetaskrifstofunni.

Haft er eftir Peres að efnahagslegar þvinganir á Íran til að fá stjórnvöld til að láta af kjarnorkuáætlun sinni séu byrjaðar að sýna árangur. „Ég held að við séum öll sammála um að best sé að byrja á friðsamlegu leiðinni, en hafa þó alla möguleika uppi á borðinu. Ef við ljúkum þessu á diplómatískan hátt er það mun farsælla," segir Peres.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, segir að tíminn sé senn á þrotum og diplómatísk nálgun í málefnum Írans þrautreynd. Að óbreyttu komi því senn að því að grípa verði til hernaðaraðgerða. Netanyahu hvatti nýlega Barack Obama Bandaríkjaforseta til að setja skýrar, „rauðar línur" fyrir stjórnvöld í Teheran, og að þeim verði gert ljóst hvaða afleiðingar það hafi að fara yfir þá línu. Obama segir að hernaðaraðgerðir séu vissulega möguleiki en hann telji þó enn rými til að fullreyna diplómatíska nálgun.

Varnarmálaráðherra Ísrael, Ehud Barak, flaug til Bretlands í dag til að ræða við utanríkisráðherrann William Hague. Ekki hefur verið gefið upp um hvað verður rætt en líklegt er talið að tilefni fundarins sé kjarnorkuáætlun Írans og ástandið í Sýrlandi.

Umfangsmikil sameiginleg æfing Bandaríkjahers og Ísraelshers stendur nú yfir og var það tilefni heimsóknar Dempsey. Æðsti maður ísraelska hersins, Benny Gantz, sat einnig fundinn með forsetanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert