35 tíma vinnuvikan undir í Frakklandi?

Jean-Marc Ayrault forsætisráðherra Frakklands.
Jean-Marc Ayrault forsætisráðherra Frakklands. AFP

Forsætisráðherra Frakklands segir koma til álita að lengja vinnuvikuna að nýju, en í Frakklandi er hún 35 stundir. Styttri vinnuvika var ein af helstu umbótum sósíalista þegar þeir sátu í ríkisstjórn í lok 10. áratugarins. 

Sósíalistar komust aftur til valda í kosningunum í maí og hétu því m.a. í kosningabaráttunni að vernda 35 stunda vinnuvikuna. Nú útilokar forsætisráðherrann, Jean-Marc Ayrault, hins vegar ekki að fyrirkomulagið verði endurskoðað, eftir því sem fram kemur í Le Parisien dagblaðinu.

Ayrault var spurður hvort til greina kæmi að lengja vinnuvikuna í 39 stundir líkt og hún var fyrir rúmum áratug. "Hvers vegna ekki? Það er ekkert tabú að ræða það," svaraði forsætisráðherrann. Ummælin hafa hleypt illu blóði í marga stuðningsmenn Sósíalistaflokksins. 

Samkvæmt núgildandi lögum á starfsfólk rétt á því að fá greidda yfirvinnu ef það vinnur umfram 35 stundir á viku. Íhaldsmaðurinn Nicolas Sarkozy reyndi að afnema lögin meðan hann sat í embætti forseta en tókst ekki.

Yfirlýst markmið laganna var að sögn BBC að hvetja fyrirtæki til að ráða fleiri starfsmenn, en gagnrýnendur segja að þau hafi aðeins orðið til þess að auka launakostnað atvinnurekenda og skaða samkeppni. Sósíalistar reyna nú að rétta efnahag landsins við og er væntanleg aðgerðaáætlun í næstu viku.

Ayrault sagði við lesendur Le Parisien að hann hefði áhyggjur af því að Frakkland væri að staðna. „Við þurfum að snúa vélinni aftur í gang af fullum krafti." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert