„Engar tilviljanir í njósnasögum“

Petraeus sver eið sem yfirmaður CIA fyrir John Biden varaforseta …
Petraeus sver eið sem yfirmaður CIA fyrir John Biden varaforseta Bandaríkjanna. Til vinstri er eiginkona Petraeus, Holly. AFP

Enn klóra Bandaríkjamenn sér í höfðinu yfir máli Davids Petraeus, fráfarandi yfirmanns CIA. Samsæriskenningar fljúga og stjórnmálaskýrendur vestra segja mörgum spurningum ósvarað, ekki síst um það hvort og þá hvernig málið tengist með einhverjum hætti hryðjuverkaárásinni á sendiráð Bandaríkjanna í Benghazi í Líbíu þann 11. september 2012.

Tilvonandi yfirmaður herafla Nató á ís

Mikill skjálfti er í Washington vegna hneykslismálsins sem varð enn torræðara í dag þegar í ljós kom að hershöfðinginn John Allen, eftirmaður Petraeus í Afganistan, virðist flæktur í sömu snöru. Hann er nú til rannsóknar hjá alríkislögreglunni FBI vegna „óviðeigandi samskipta“ við konu sem tengist framhjáhaldshneyksli Petraeus. Til stóð að færa Allen upp í tign sem æðsta yfirmann herafla Nató en skv. AFP ákvað Barack Obama Bandaríkjaforseti í dag, að beiðni Leons Panetta varnarmálaráðherra, að fresta útnefningunni á meðan málið er rannsakað.

Washington Post hefur eftir hátt settum, en ónefndum starfsmanni Pentagon, varnarmálaráðuneytisins, að FBI hafi undir höndum 20.000-30.000 blaðsíður af tölvupóstsamskiptum milli Allens og Jill Kelley, konunnar sem fékk hótunarbréf frá Paulu Broadwell, hjákonu og ævisagnaritara Petraeus.

Ekki hefur komið fram hvað stendur í þessum tölvupóstum né heldur hvers eðlis hótanir Broadwell voru, en fulltrúar FBI gerðu í gærkvöldi húsleit á heimili hennar í Norður-Karólínu og lögðu m.a. hald á tölvu og ýmis gögn. 

Mörg lög lauksins

Til að gera atburðarásina enn sérkennilegri sagði Wall Street Journal frá því í dag að FBI-fulltrúinn sem hóf rannsókn málsins upphaflega, eftir að Jill Kelley sagði honum frá hótunarbréfunum, hafi verið settur af fyrir nokkru og málið tekið úr hans höndum. Töldu yfirmenn hans hjá FBI hann hafa „fengið málið á heilann“. Í kjölfarið lak hann málavöxtum til þingmanns repúblikanaflokksins því honum fannst alríkislögreglan ekki beita sér af nógu mikilli hörku í því. Hann er nú sjálfur til rannsóknar hjá FBI og hefur komið í ljós að hann hefur sent umræddri Kelley myndir af sér berum að ofan.

Um fátt annað virðist talað í bandaríska stjórnkerfinu í dag en þetta allsherjarhneyksli, sem sagt er það furðulegasta í stjórnartíð Baracks Obama til þessa. Blaðamaður Washington Post segir að sú hlið málsins sem snúi að framhjáhaldinu sé vissulega hryggileg, en allt hitt sem á eftir fylgdi sé óskiljanlegt, ekki síst þegar litið sé til tímasetningarinnar. 

Eitthvað rotið í veldi leyniþjónustunnar?

Fram hefur komið að FBI hóf rannsóknina á hótunarbréfum Paulu Broadwell í sumar og komst brátt á snoðir um framhjáhaldið. Yfirmaður leyniþjónustumála hjá ríkisstjórninni, James Clapper, og Bandaríkjaforseti voru þó ekki upplýstir um að verið væri að rannsaka Petraeus fyrr en töluvert löngu síðar, að loknu forsetakjöri í nóvember. „Fyrirgefið, en það eru engar tilviljanir í njósnasögum,“ skrifar Eugene Robinson, blaðamaður og pistlahöfundur Washington Post. Hann veltir því upp hvort FBI hafi viljað halda rannsókninni leyndri til að fá ekki ásökun um að reyna vísvitandi að koma óorði á CIA, eða til að forðast að hún yrði blásin upp sem pólitískt deilumál í kosningabaráttunni.

Annar pistlahöfundur sama blaðs, lögfræðingurinn Jennifer Rubin, segir að bæði repúblikanar og demókratar vilji eflaust sópa vandræðum síns ástkæra hershöfðingja Petraeus undir teppið, en of mörgum spurningum sé ósvarað. Hvers vegna ákvað FBI til dæmis að hefja allsherjarrannsókn vegna hótunarbréfa frá einni konu til annarrar? Hvers vegna tók það  FBI marga mánuði að átta sig á því að málið snerist um framhjáhald en ekki spillingu eða upplýsingaleka? Hverjir aðrir en FBI vissu að verið var að rannsaka yfirmann CIA? Hvers vegna var enginn í Hvíta húsinu upplýstur fyrr en um leið og kosningabaráttan var afstaðin? Hvers vegna þrýsti James Clapper á Petraeus að segja strax af sér?

Hryðjuverkaárásin í Benghazi þvælist fyrir

Eitt af því sem vakið hefur spurningar er hvort málið kunni á einhvern hátt að tengjast klúðrinu í kringum hryðjuverkaárásina á sendiráðið í Benghazi, þar sem sendiherrann Christopher Stevens og þrír bandarískir starfsmenn létu lífið. Gagnrýnt hefur verið að bandarísk stjórnvöld hafi upphaflega brugðist við með því að lýsa árásinni í Benghazi sem mótmælum sem farið hafi tilviljanakennt úr böndunum, en ljóst þykir nú að um var að ræða skipulagða árás í tilefni 11. september. 

Árásin og viðbrögðin við henni eru til rannsóknar hjá sérstakri þingnefnd þar sem m.a. er sóst eftir svörum við þeirri spurningu hvort enginn grunur hafi vaknað hjá CIA um fyrirhugaða árás. Petraeus fór sjálfur til Líbíu í október til að ræða við starfsmenn CIA þar um málið og hafði hann verið boðaður fyrir þingnefndina á fimmtudaginn til að greina frá sínum niðurstöðum. Því hefur nú verið frestað en líklegt þykir þó að Petraeus muni aftur verða kallaður fyrir nefndina síðar.

Undarleg ummæli Paulu Broadwell

Fjölmiðlar hafa nú sett í nýtt samhengi ummæli sem ástkona hershöfðingjans, Paula Broadwell, lét falla á fyrirlestri í háskólanum í Denver 26. október síðastliðinn. Broadwell var þangað komin til að fjalla um bók sína um hershöfðingjann og eigin reynslu af starfi hersins. Svar hennar við spurningu um árásina í Benghazi hefur vakið vangaveltur um hvort Broadwell hafi búið yfir upplýsingum frá CIA sem almennur borgari ætti ekki að hafa. 

„Ég veit ekki hvort þið hafið heyrt af þessu, en CIA hafði handtekið nokkra líbíska skæruliða og þeir halda að árásin hafi kannski verið tilraun til að frelsa þessa fanga. Það er enn verið að skoða það,“ sagði Broadwell skv. Wall Street Journal. CIA hafnar þessu alfarið, enda hafi Obama afnumið heimil leyniþjónustunnar til að halda mönnum föngnum árið 2009. Sumir telja að Broadwell hafi fengið þessa meintu vitneskju sína frá röngum fréttaflutningi Fox News um málið.

Broadwell tjáði sig hins vegar líka í fyrirlestrinum um Petraeus á persónulegum nótum. Hún sagði það erfitt fyrir hann að mega nú ekki lengur tjá sig við fjölmiðla í ljósi stöðu sinnar sem yfirmaður leyniþjónustunnar. „Hann veit allt um þetta, þeir höfðu samband við fulltrúa CIA í Líbíu og innan 24 klukkustunda vissu þeir nokkurn veginn hvað hafði gerst,“ sagði hún þótt það stangist nokkuð á við fyrstu opinberu viðbrögð stjórnvalda.

Dramb og fall á við grískan harmleik

Bandarískir þingmenn munu í vikunni sitja fjölda lokaðra funda þar sem fjallað verður bæði um árásina í Benghazi og rannsókn FBI á Petraeus. Samsæriskenningasmiðir hafa sannarlega komist í feitt í þessu máli en hvort sem meira býr að baki eða ekki vekur framferði þeirra Petraeus og Allens spurningar um hvernig á því stendur að tveir af æðstu og virtustu mönnum Bandaríkjahers skuli leiða hjá sér hugsanlega áhættu sem falist gat í nánum samskiptum manna í þeirra stöðu við sér mun yngri konur utan hersins.

Haft er eftir nánum samstarfsmanni Petraeus frá Írak að hann hafi fram á síðustu stundu vonað að málið yrði aldrei opinbert svo hann þyrfti ekki að segja af sér. Honum varð ekki að þeirri ósk sinni. Einn pistlahöfunda Washington Post líkir málinu við grískan harmleik þar sem dramb er falli næst. Í þessu tilfelli virðist akkilesarhæll hetjanna ósigrandi hafa verið hvort tveggja, kynhvötin og nútímatækni. 

Fulltrúar FBI gerðu í gærkvöldi húsleit á heimili Paulu Broadwell …
Fulltrúar FBI gerðu í gærkvöldi húsleit á heimili Paulu Broadwell og lögðu hald á tölvur ýmis gögn. AFP
Hershöfðingjarnir John Allen og David Petraeus taka á móti varnarmálaráðherranum …
Hershöfðingjarnir John Allen og David Petraeus taka á móti varnarmálaráðherranum Leon Panetta í Afganistan 2011. AFP
David Petraeus ásamt Paulu Broadwell í Afganistan.
David Petraeus ásamt Paulu Broadwell í Afganistan. AFP
Hershöfðinginn John Allen hefur nú einnig flækst í málið.
Hershöfðinginn John Allen hefur nú einnig flækst í málið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka