Yfir 80% kvenna horfa á klám

Bandaríska klámleikkonan Jesse Jane
Bandaríska klámleikkonan Jesse Jane AFP

Franskar konur horfa á klám líkt og franskir karlar ef marka má niðurstöðu nýrrar rannsóknar þar í landi. Þar kemur fram að rúmlega 80% kvenna hafa horft á klámmynd, þar af helmingurinn án maka.

Samkvæmt rannsókn IFOP sem birt var í dag höfðu 82% þeirra 579 kvenna sem tóku þátt í rannsókninni horft á klámmynd að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Hlutfallið er hins vegar hærra meðal franskra karla þar sem 99% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni sögðust hafa horft á klám.

Í rannsókn sem gerð var árið 2006 af sömu stofnun sögðust 73% kvenna hafa horft á klám en árið 1992 höfðu einungis 23% kvenna horft á slíkt efni, samkvæmt könnun INSERM.

Segja þeir sem unnu könnunina nú að á nokkrum árum hafi viðhorf til áhorfs á klámi breyst og það þyki nú eðlilegur hlutur að konur horfi á slíkt efni. Þetta megi rekja til netsins og þess að mun auðveldara er að nálgast efni í sjónvarpi án þess að þurfa að leita eftir því á myndbandaleigum. Ekki þurfi lengur að pukrast með áhorf á klám líkt og var áður.

62% kvennanna sögðust horfa á klám til þess að hressa upp á kynlíf sitt með maka en helmingur þeirra hafði einnig horft á klám án þess að maki væri viðstaddur.

Francois Kraus, sem stýrði rannsókn IFOP, segir að þessi breyting hafi átt sér stað á sama tíma og notkun kynlífsleikfanga hefur orðið meiri og viðurkenndari. Dregið hafi úr fordómum gagnvart sjálfsfróun kvenna og það þyki hinn eðlilegasti hlutur meðal ungra kvenna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert