Fær bætur fyrir upplogna frétt

Louis Walsh
Louis Walsh Af vef Wikipedia

X-Factor-dómarinn Louis Walsh hefur ákveðið að þiggja 500 þúsund evrur, 82 milljónir króna, í miskabætur frá útgáfufyrirtæki dagblaðsins Sun sem birti upplogna frétt um að Walsh hefði áreitt karlmann kynferðislega á næturklúbbi í Dublin á Írlandi. Þarf útgáfufyrirtæki Sun að greiða allan málskostnað Walsh, 180 þúsund evrur.

Á fréttavef Guardian kemur fram að Walsh, sem er umboðsmaður hljómsveitarinnar Westlife, auk þess að vera dómari í X Factor-keppninni, hafi höfðað skaðabótamál gegn útgáfufélagi Sun, News Group.

Fréttin sem um ræðir birtist í írsku útgáfunni af Sun hinn 23. júní 2011 og kom þar fram að Walsh væri til rannsóknar hjá lögreglu vegna kynferðislegs ofbeldis gagnvart manni á klósetti næturklúbbsins. Var fréttin bæði birt í írsku útgáfunni af Sun og þeirri bresku.

Atvinnulaus danskennari, Leonard Watters, var í júlí dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa sakað Walsh um að hafa káfað á sér á næturklúbbnum Krystle í Dublin eftir tónleika Westlife í apríl 2011.

Talsmaður News sagði í réttarsalnum í dag að Sun hefði birt fréttina sem var röng hinn 23. júní 2011. Í fréttinni kom fram að Walsh væri til rannsóknar vegna kynferðislegrar árásar á Leonard Watters. Síðar hefði komið í ljós að Watters hefði logið að lögreglu og var dæmdur í fangelsi fyrir að bera ljúgvitni. Sun staðfesti að árásin var aldrei framin og að Walsh væri  saklaus. Sun biðjist afsökunar á fréttinni og öllum þeim vandræðum sem hún hafi bakað Walsh, að sögn talsmanns blaðsins í réttarsalnum í morgun.

Mun aldrei jafna sig á áfallinu

Lögmaður Walsh, Paul Tweed, segir að málið sé dæmi um það sem skoðað sé í Leveson-rannsókninni. Ekki sé verið að reyna að koma í veg fyrir rannsóknarblaðamennsku heldur einungis farið fram á að rétt sé farið með í fréttum. Til að mynda ef þeir Walsh hefðu getað stöðvað fréttina í sólarhring hefði verið hægt að sýna fram á að Walsh var ekki einu sinni á næturklúbbnum umrætt kvöld. Blaðið hafi hins vegar einungis gefið Walsh nokkrar klukkustundir, sem ekki var nægjanlegur tími, til þess að leggja fram sannanir í málinu sem hefðu drepið fréttina.

Guardian hefur eftir Walsh að það sé léttir að málinu sé lokið en þrátt fyrir það muni hann aldrei ná sér af áfallinu sem hann varð fyrir eftir að fréttin birtist.

Walsh segir að hann hafi sagt Gordon Smart, ritstjóra slúðurefnis hjá Sun, kvöldið áður en blaðið kom út að ásakanir í hans garð væru rangar. Þrátt fyrir það hafi blaðið birt fréttina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert