Sjálfstætt Skotland yrði utan ESB

Forsætisráðherra Skotlands, Alex Salmond.
Forsætisráðherra Skotlands, Alex Salmond. AFP

Ef Skotland segði skilið við breska konungdæmið og yrði sjálfstætt ríki yrði það að sækja að nýju um aðild að Evrópusambandinu og það hefði þá ekki undanþágu frá evrunni og Schengen-samstarfinu líkt og Bretland hefur.

Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en þar segir að framkvæmdastjórn sambandsins hafi staðfest þessa afstöðu til málsins. Framkvæmdastjórnin hafi þó neitað því en skoska dagblaðið Scotsman segist hafa afrit af yfirlýsingu hennar.

Ennfremur segir í fréttinni að um sé að ræða töluvert áfall fyrir Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands, sem hefur haldið því fram að ef Skotar lýstu yfir sjálfstæði yrðu þeir sjálfkrafa aðilar að Evrópusambandinu.

Þá er rifjað upp að bæði Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, og José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, hafi áður lýst þeirri afstöðu sinni að Skotar yrðu sem sjálfstætt ríki að sækja á ný um aðild.

Spænsk stjórnvöld hafi einnig lýst því yfir að þau myndu ekki samþykkja að Skotland fengi sjálfkrafa aðild að Evrópusambandinu ef það segði skilið við Bretland en þau óttast að það yrði til þess að ýta undir sjálfstæðiskröfur Katalóníu-héraðs á Spáni.

Frétt Daily Telegraph

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert