Segja fíkniefnalöggjöfina ekki virka

AFP

Bresk fíkniefnalöggjöf virkar ekki og ríkisstjórnin ætti að endurskoða hana frá grunni, m.a. hvort að lögleiða eigi kannabisefni. Þetta kemur fram í skýrslu þingnefndar innanríkisráðuneytisins.

Nefndin kallar eftir auknum aðgerðum vegna notkunar fíkniefna í breskum fangelsum og til að hjálpa fíklum eftir að þeir losna úr fangelsi. Þá vill nefndin að harðar verði tekið á peningaþvætti og að yfirmenn banka verði sóttir til saka fyrir að aðstoða fíkniefnasala við slíkt.

Þá vilja þeir að smásala á lyfjum sem valda fíkn verði tekin fastari tökum. Einnig vilja þeir að bresk stjórnvöld skoði löggjöf í Bandaríkjunum sem heimili notkun kannabisefna og sömuleiðis breytingar á löggjöfinni í Portúgal.

„Eftir að hafa skoðað breska fíkniefnalöggjöf í heilt ár er það ljóst í okkar huga að margir þættir löggjafarinnar virka ekki sem skyldi og hana þarf því að endurskoða frá grunni,“ segir formaður nefndarinnar, Keith Vaz, þingmaður Verkamannaflokksins.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar hafnað ábendingum nefndarinnar.

„Fíkniefni eru ólögleg af því að þau eru skaðleg, þau eyðileggja líf og eru baggi á samfélaginu,“ segir talsmaður ríkisstjórnarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert