Líkið lá á akri í rúma viku

Úr safni.
Úr safni. AFP

Lögreglan í Hollandi reynir nú að komast að því hvers vegna lík fallhlífastökkvara gat legið á akri í rúma viku án þess að nokkur hefði orðið þess var. Boogaard lést eftir að fallhlífin hans opnaðist ekki.

Fram kemur á vef breska útvarpsins, að ekki hafi verið lýst eftir fallhlífastökkvaranum Mark van den Boogaard og á endanum hafi menn á kanínuveiðum fundið líkið.

Hann undirbjó stökkið með stærsta fallhlífastökksfélagi Hollands. Talsmenn félagsins segja að menn hafi ekki farið að leita að Boogaard því það sé ekki óalgengt að fallhlífastökkvarar láti ekki vita af sér eftir stökk. Menn séu hins vegar miður sín vegna málsins.

Lögreglan hefur heimsótt ættingja mannsins til að greina þeim frá andlátinu. Hún segir að Boogaard hafi aftur á móti ekki átt í miklum samskiptum við sína nánustu og því telur lögreglan að enginn hafi óskað eftir því að leit yrði hafin að honum. Enginn hafi saknað hans.

Boogaard er lýst sem vinalegum og glöðum manni. Hann hafi verið einfari sem hafi átt lítil samskipti við aðra. Hann bjó yfir töluverðri reynslu sem fallhlífastökkvari.

Hann var með sjálfstæðan atvinnurekstur og átti enga vinnufélaga sem söknuðu hans heldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert