McGregor og McCartney heiðruð

Bradley Wiggins hlaut í dag riddaratign drottningar. Hann segist þó …
Bradley Wiggins hlaut í dag riddaratign drottningar. Hann segist þó ekki búast við að nota sir-titilinn dagsdaglega. AFP

Bradley Wiggins, sem vann hjólreiðakeppnina Tour de France í sumar var í hópi þeirra sem ELísabet Englandsdrottning sæmdi riddaratign í dag. Fleiri breskir íþróttamenn voru einnig heiðraðir fyrir glæsileg afrek sem þeir unnu  á ólympíuleikunum í Lundúnum í sumar. Talið er að leikstjórinn Danny Boyle hafi hafnað viðurkenningu, sem hann átti að fá.

Viðurkenningarnar voru veittar í nýárshófi drottningar sem haldið er árlega. Þar er birtur svokallaður nýársafrekalisti, en í ár voru íþróttamenn áberandi á listanum. Þar á meðal mátti finna alla gullverðlaunahafa Breta á óympíuleikunum, sjöþrautarkonuna Jessicu Ennis, hjólreiðakonuna Victoriu Pendleton og hlauparann Mo Farah. 

Auk þess var siglingamanninum Ben Ainslie veitt viðurkenning, en hann hefur hlotið flest verðlaun allra siglingamanna í sögu íþróttarinnar. Hlaut hann nafnbótina CBE sem stendur fyrir „Commander of the Order of the British Empire.“

12 ára þrotlaus vinna

Wiggins er fyrsti Bretinn sem ber sigur úr býtum í Frakklandshjólreiðunum. „Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að ég yrði sæmdur riddaratign. Þetta er ótrúlegur heiður,“ sagði Wiggins við tilefnið.

„Ég mun ekki nota Sir- titillinn hversdagslega en það er indælt að hafa æðstu viðurkenningu  heimalandsins í  verðlaunaskápnum sem stendur ekki aðeins fyrir þennan staka sigur heldur 12 ára þrotlausa vinnu og átök. Fernir ólympíuleikar, sjö verðlaunapeningar,“ sagði Bradley, sem er 32 ára gamall.  

Í samtali við fjölmiðla sagði Wiggins að það hefði aldrei leikið neinn raunverulegur vafi á að hann myndi taka á móti viðurkenningunni, en nokkur dæmi eru um að afreksíþróttamenn hafi neitað því. „Tilfellið er frekar að ég á erfitt með að kalla mig Sir, og mun líklegast aldrei gera það.“

Auk afreksíþróttamanna var fleirum sem þóttu skara fram úr á árinu veitt viðurkenning við sama tækifæri. Prófessorinn Peter Higgs hlaut riddaratign, en hann er þekktastur fyrir að hafa gefið Higgs bóseindinni nafn sitt. Tilvist hennar var sönnuð í júlí á þessu ári, 48 árum eftir að Higgs lagði kenninguna fyrst fram. 

Hrópandi fjarvera Boyle

Auk þess hlutu leikarinn Ewan McGregor og tískuhönnuðurinn Stella McCartney viðurkenningar fyrir störf sín, en Stella hannaði íþróttabúninga bresku ólympíukeppendanna í ár. 

Margir hafa bent á að eitt nafn hafi tilfinnanlega vantað á listann, en það er Danny Boyle, sem skipulagði opnunarhátíð ólympíuleikanna í Lundúnum auk þess sem hann leikstýrði hinni gríðarvinsælu kvikmynd „Slumdog Millionaire. Orðrómur er á kreiki um að hann hafi hafnað orðunni. 

Cherie Blair, eiginkona Tonys Blairs, fyrrum forsætisráðherra Breta, var heiðruð fyrir störf sín í þágu kvenréttindabaráttu og góðgerðarstarfa í Bretlandi og utan þess. Hún hefur einkum beitt kröftum sínum í þágu baráttu gegn brjóstakrabbameini, stofnana sem sjá heimilislausum fyrir skjóli og er þar að auki forseti samtaka sem veita ekkjum víðs vegar um heiminn nauðsynlega aðstoð. 

Meðal annarra sem hlutu orðu við þetta tækifæri voru listakonan umdeilda Tracey Emin, fyrsti kvenkyns utanríkisráðherra Breta, Margaret Beckett og handritshöfundurinn Jeremy Lloyd, sem skrifaði marga af þekktustu gamanþáttum Breta, svo sem „Allo' Allo'“ og „Are you being served?“. Auk þess hlaut forstjóri MI5 (bresku leyniþjónustunnar), Jonathan Evans orðu fyrir að baráttu sína gegn hryðjuverkum, en hann tók við stjórn MI5 í kjölfar sprengjuárásanna á lestarkerfi Lundúnaborgar árið 2005. 

Stella McCartney hlaut viðurkenningu drottningar, en hún hannaði búninga bresku …
Stella McCartney hlaut viðurkenningu drottningar, en hún hannaði búninga bresku íþróttamannanna sem kepptu á Ólympíuleikunum í sumar. PATRICK KOVARIK
Faðir Higgs-bóseindarinnar, Peter Higgs, veitti viðurkenningu drottningar viðtöku.
Faðir Higgs-bóseindarinnar, Peter Higgs, veitti viðurkenningu drottningar viðtöku. FABRICE COFFRINI
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert