Átökin eru á milli þjóðar og óvina hennar

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segir að ríkisstjórn hans hafi ekki fundið „samstarfsfélaga“ til þess að finna lausn á ófremdarástandinu í landinu sem hefur staðið í 21 mánuð og kostað meira en 70.000 manns lífið. Hann segir deiluna ekki vera á milli stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, heldur á milli þjóðarinnar og óvina hennar og segist ekki ætla að víkja úr embætti.

„Það eina sem við vitum með vissu er að þeir sem við erum að kljást við í dag aðhyllast hugmyndafræði al-Qaeda samtakanna,“ sagði Assad og sagði að erlendir hryðjuverkamenn stæðu á bak við óeirðirnar og mótmælin í landinu. „Það eru þeir sem vilja skipta Sýrlandi niður og veikja þjóðina. En Sýrland er öflugt og mun halda fullveldi sínu. Það hleypir illu blóði í Vesturlönd.“

Hefur ekkert tjáð sig í sjö mánuði

Assad hélt ávarp í menningarmiðstöð í Damaskus, höfuðborg Sýrlands í morgun og var það sent út beint á ríkissjónvarpsstöð landsins. Þess hafði verið ákaft beðið því mánuðir eru síðan hann tjáði sig síðast opinberlega, en það var síðast þann 3. júní í fyrra. Hann hefur á þeim tíma hvorki tjáð sig um mannfallið í landinu né flótta hundraða þúsunda til nágrannalandanna.

Hann kallaði eftir umræðu meðal þjóðarinnar þegar tekist hefði að binda enda á átökin og sagði að stjórnarskipti yrðu að fara eftir ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hann sagðist ekki ætla að láta undan þrýstingi frá alþjóðasamfélaginu um að fara frá völdum.

Segir Sýrlendinga verða að taka höndum saman

Assad hvatti Sýrlendinga til að taka höndum saman og verja þjóð sína. „Allir verða að verja landið, það er verið að ráðast á alla þjóðina.“

Forsetinn þurfti ítrekað að gera hlé á málflutningi sínum er viðstaddir lofuðu hann með orðunum: „Með sál okkar og blóði munum við fórna okkur fyrir þig, Ó Bashar.“

Assad sakaði alþjóðasamfélagið um óviðeigandi afskipti af deilunni. „Þjóðir heims verða að hætta að veita fé til vopnaðra manna. Þá munum við hætta hernaðaraðgerðum okkar.“

Assad í ræðustól í morgun.
Assad í ræðustól í morgun. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert