Drápu heila fílahjörð

Fílahjörð í Kenía.
Fílahjörð í Kenía. AP

Keníska dýraverndunarstofnunin leitar nú að hópi veiðiþjófa sem eru grunaðir um að hafa skotið heila fílahjörð, alls 11 dýr, síðasta laugardag í þeim tilgangi að komast yfir verðmætt fílabein.

Drápið á fílahjörðinni er talið eitt versta einstaka tilfelli veiðiráns sem skráð hefur verið í landinu fram til þessa.

100 fílar drepnir árlega í Kenía af veiðiþjófum

Keníastjórn hefur nýverið aukið aðgerðir enn frekar til að vinna gegn veiðiráni, en fílabein er mjög eftirsótt á Asíu-markaði. Um 100 fílar eru drepnir ár hvert í Kenía af veiðiþjófum.

Þrátt fyrir áralangt alþjóðlegt bann á viðskiptum með fílabein og nashyrningshorn, er ennþá nokkuð um að hvoru tveggja sé smyglað til Asíu þar sem fílabeinið eru notað til skrautmunagerðar en nashyrningshorn til lyfjagerðar.

Drápu fílana innan þjóðgarðs

Fíladrápið á laugardag átti sér stað í þjóðgarðinum Tsavo, sem er stærsta einstaka ósnortna vistkerfið í Kenía og innan þess lifa um 13.000 fílar.

„Þetta sýnir hversu langt þessir glæpsamlegu veiðiþjófar eru tilbúnir að ganga fyrir fílabeinið. Það er mjög sorglegt,“ sagði talsmaður stofnunarinnar, Paul Udo við Reuters-fréttastofuna.

Hann sagðist halda að veiðiþjófagengið gæti verið um tíu manns og sagði að þess væri nú leitað bæði af jörðu niðri og úr lofti.

Veiðiþjófnaður hefr aukist í Kenía undanfarin ár

Í yfirlýsingu sem dýraverndunarstofnunin sendi frá sér segir að öll dýrahjörðin hafi drepist af völdum skotsára.

Stjórnvöld í Kenía bönnuðu viðskipti með fílabein árið 1989 og í kjölfarið dróst veiðiþjófnaður verulega saman, en á undanförnum árum hefur sú iðja aftur tekið að vaxa, eftir því sem fram kemur í frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert