Dæmdur vegna fjöldamorða sonarins

Beretta skammbyssa en Kretschemer framdi fjöldamorðin með slíkri byssu
Beretta skammbyssa en Kretschemer framdi fjöldamorðin með slíkri byssu AFP

Þýskur karlmaður, sem er faðir sautján ára pilts sem skaut fimmtán til bana og svipti sig lífi, var í dag dæmdur í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp og brot á byssulöggjöfinni.

Dómur yfir Jörg Kretschemer, 54 ára, var kveðinn upp í Stuttgart í dag. En sonur hans, Tim, tók skammbyssu sem var í eigu föður hans, með sér þegar hann kom í gamla skólann sinn í Winnenden norðan við Stuttgart í Suður-Þýskalandi í mars 2009. Flest fórnarlambanna voru nemendur í Albertville-iðnskólanum en Tim var fyrrverandi nemandi við skólann.

Dómurinn í dag var kveðinn upp af áfrýjunardómstól en í undirrétti hafði faðirinn verið dæmdur í 21 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Saksóknari hafði farið fram á þyngri dóm en verjandi sagði að Kretschemer hefði tekið út sína refsingu með dauða sonarins.

Skotárásin er ein sú alvarlegasta sem orðið hefur í þýskum skóla. Hún þykir minna á skotárásina sem var gerð hinn 26. apríl 2002 í Gutenberg-menntaskólanum í Erfurt. Þá skaut nítján ára nemandi, sem hafði verið rekinn úr skólanum, 16 manns til bana áður en hann batt enda á eigið líf.

Kretschemer, sem átti fjölmörg vopn og var með leyfi fyrir þeim öllum, var svo hræddur við innbrotsþjófa að hann geymdi byssuna við hliðina á rúmi sínu þar sem sonurinn, sem glímdi við þunglyndi, tók vopnið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert