Vilja ekki gengisstefnu fyrir evruna

François Hollande, forseti Frakklands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á …
François Hollande, forseti Frakklands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á góðri stund. AFP

„Við erum sannfærð um að gengi gjaldmiðla endurspegli stöðu efnahagsmála, einkum þau sem eru sveigjanleg. Við erum reiðubúin að taka upp viðræður við Frakkland um málið en þýsk stjórnvöld eru ekki þeirrar skoðunar að gengisstefna sé heppileg leið til þess að stuðla að aukinni samkeppnishæfni.“ Þetta er haft eftir Steffen Seibert, talsmanni ríkisstjórnar Þýskalands, á fréttavefnum Euobserver.com í dag.

François Hollande, forseti Frakklands, sagði í ræðu sem hann flutti í Evrópuþinginu í Strasbourg í gær og á blaðamannafundi í kjölfarið að hátt gengi evrunnar ógnaði efnahagslegum hagsmunum Evrópusambandsins og tilraunum ríkja eins og Frakklands til þess að auka samkeppnishæfni sína. Þá kallaði hann eftir alþjóðlegum aðgerðum til þess að koma í veg fyrir að höfð væru óeðlileg áhrif á þróun gengis gjaldmiðla.

„Myntbandalag verður að búa yfir gengisstefnu. Sé svo ekki stýrist það af gengi sem endurspeglar ekki raunverulega stöðu efnahagslífsins,“ sagði Hollande og ennfremur að Evrópusambandið skildi evruna eftir varnarlausa gagnvart órökréttum gengissveiflum. „Við verðum að grípa til aðgerða á alþjóðlegum vettvangi til þess að vernda hagsmuni okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert