Tekist á um niðurskurð á Bandaríkjaþingi

Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, lét varnaðarorð falla í dag vegna fyrirhugaðra 85 milljarða dollara niðurskurðaraðgerða. Barack Obama Bandaríkjaforseti segir niðurskurðinn rangan og Repúblikanar á þingi neita að samþykkja tillögur forsetans um að hækka skatta á fyrirtæki og þá efnameiri.

„Þessi niðurskurður er rangur, hann er ekki skynsamlegur og ekki sanngjarn,“ sagði Obama í dag, er hann var í heimsókn í skipasmíðastöð í Newport. Hann segist óttast að niðurskurðurinn muni koma niður á vörnum landsins og ef hann verði að veruleika muni tugþúsundir hermanna missa störf sín.

Að auki mun landamæragæsla minnka, kennurum verður sagt upp störfum og draga mun úr ýmissi almannaþjónustu. Repúblikanar saka forsetann um að beita hræðsluáróðri og að beita her landsins fyrir sig. 

Segir Obama láta eins og heimsendir sé í nánd

John Boehner, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, segir forsetann nota konur og karla í herþjónustu sem „leikmuni“ í enn einni herferð sinni við að hækka skatta.

 Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild þingsins segir að Obama sé að kenna pólitískum andstæðingum sínum um eigin ófarir. 

„Forsetinn hleypur hér um og lætur eins og heimsendir sé í nánd vegna þess að þingið gæti hugsanlega fylgt eftir hans eigin hugmyndum, sem hann hefur reyndar gert að lögum. Og á meðan lætur hann eins og hann sé algerlega ófær um að stöðva þetta,“ sagði McConnell á þingi í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert