Ætlar að smíða tvífara Titanic

Titanic.
Titanic.

Ástralskur milljónamæringur er að undirbúa smíði skips í sömu mynd og hið sögufræga Titanic sem sökk í jómfrúarferð sinni milli Evrópu og Bandaríkjanna í apríl 1912. Áætlað er að systurskipið verði fullbúið árið 2016.

Clive Palmer hefur afhjúpað teikningarnar af skipinu í New York í gær. Hann segir að smíði skipsins hefjist í Kína fljótlega.

Palmer segir að um 40 þúsund manns hafi þegar lýst áhuga á að kaupa farmiða í jómfrúarsiglingunni. Sú sigling verður frá Southampton á Englandi til New York, rétt eins og Titanic átti að sigla fyrir rúmum 100 árum.

Í frétt AP-fréttastofunnar er haft eftir honum að hann njóti stuðnings við smíði þessa sögufræga skips.

„Við búum öll á þessari plánetu, við öndum öll að okkur sama andrúmsloftinu og auðvitað er Titanic eitt af því sem við eigum sameiginlegt,“ sagði hann. „Titanic tengir þrjár heimsálfur.“

Hið upprunalega skip, Titanic, var stærsta og íburðarmesta skip síns tíma. Því var siglt á ísjaka í Norður-Atlantshafi og sökk 15. apríl 1912. Aðeins um 700 manns komust lífs af en yfir 2.000 manns voru um borð í skipinu.

Palmer hefur litlar áhyggjur af því að nýja skipið muni hljóta sömu örlög. Hann segir að vegna hlýnunar jarðar séu fáir ísjakar á þessum slóðum í dag.

Farþegar nýja skipsins munu klæðast fatnaði í anda þess tíma sem Titanic fór í sina siglingu. Í boði verður sambærilegur matur - borinn fram á sambærilegum diskum.

Nýja skipið verður með fjórum strompum líkt og Titanic en þó dísilknúið. Það verður svo auðvitað búið nýjustu siglingatækjum. Þá verður þess gætt að nóg af björgunarbátum verði fyrir alla.

Palmer fjármagnar smíði skipsins sjálfur. Hann varð auðugur í kola- og fasteignabransanum.

„Ég vil eyða peningunum mínum áður en ég dey,“ segir Palmer.

Ástralski auðkýfingurinn Clive Palmer.
Ástralski auðkýfingurinn Clive Palmer. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert