Knattspyrnumaður dæmdur fyrir morð

Bruno Fernandes
Bruno Fernandes Af vef Wikipedia

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Bruno Fernandes var í dag dæmdur í 22 ára fangelsi fyrir að hafa látið myrða barnsmóður sína. Hann var einnig sakfelldur fyrir að hafa falið lík hennar og rænt syni þeirra árið 2010.

Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að Fernandes, sem áður lék með einu þekktasta knattspyrnuliði Brasilíu, Flamengo, viðurkenndi við réttarhöldin að hafa vitað af því að Eliza Samudio (25 ára) hafi verið kyrkt og að líkamsleifar hennar hafi verið gefnar hundum að éta en neitaði að hafa látið myrða hana. Hann segir að tveir menn, sem einnig voru ákærðir fyrir morðið, hafi myrt hana og borið ábyrgð á því.

Mikið hefur verið fjallað um málið í brasilískum fjölmiðlum og því líkt við OJ Simpson réttarhöldin í Bandaríkjunum.

Fernandes, 28 ára, naut gríðarlega vinsælda meðal knattspyrnuáhugafólks í Brasilíu og var áður talið líklegt að hann myndi spila fyrir brasilíska landsliðið á HM í knattspyrnu 2014.

Auk Fernandes er vinur hans, Luiz Henrique Ferreira Romao og Marcos Aparecido dos Santos, fyrrverandi lögreglumaður, ákærðir fyrir morðið á Samuido.

Saksóknari sagði við réttarhöldin að Samuido hafi verið myrt eftir að hún krafði knattspyrnumanninn um meðlag fyrir son þeirra. Samkvæmt lögregluskýrslum var hún kyrkt, lík hennar hlutað niður og hluti þess gefið hundum að éta. Líkamsleifar hennar hafa aldrei fundist. 

Í nóvember í fyrra var Romao dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir hlut sinn í morðinu en hann játaði að hafa tekið þátt í því að beiðni Fernandes.

Santos er sakaður um að hafa pyntað og hlutað lík hennar. Ekki hefur verið dæmt í hans hluta málsins.

Samudio var tæld til að koma á hótel í Rio de Janeiro í júní 2010 undir því yfirskyni að hún ætti að koma í DNA-próf til þess að sanna að knattspyrnumaðurinn væri faðir drengsins. Var henni rænt þar ásamt syninum og farið með þau á heimili Fernandes í Belo Horizonte.

Barnið fannst síðar á heimili vina fyrrverandi eiginkonu Fernandes, Dayanne Rodrigues en hún var á sínum tíma einnig handtekin grunuð um aðild að glæpnum. Hún var síðar sýknuð en þau voru gift á þeim tíma sem glæpurinn var framinn.

Fernandes var í desember 2010 dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í öðru máli fyrir að hafa rænt og ráðist á Samudio á árinu 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert